„Við munum skrifa næsta kafla“

Emmanuel Macron Frakklandsforseti.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti. AFP

Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, segist ætla að skrifa næsta kafla í sögu Evrópu með nýjum kanslara Þýskalands, Olaf Scholz.

Scholz tók í dag við af Angelu Merkel sem hafði verið við völd í 16 ár.

„Við munum skrifa næsta kafla í sameiningu. Fyrir Frakka, fyrir Þjóðverja, fyrir Evrópubúa,” tísti Macron þar sem hann fagnaði kjöri Scholz í neðri deild þýska þingsins í morgun.

Hann þakkaði Merkel einnig fyrir að „gleyma aldrei þeim lærdómi sem má draga af sögunni, fyrir að gera svo mikið fyrir okkur, með okkur, til að færa Evrópu fram á við.”

mbl.is