Heimilt að framselja Assange til Bandaríkjanna

AFP

Yfirréttur í Bretlandi hefur komist að þeirri niðurstöðu að það sé heimilt að framselja Julian Assange, stofnanda Wikileaks, til Bandaríkjanna. Áfrýjunardómstóllinn hefur þar með snúið við dómi á neðra dómstigi.

Fram kemur í erlendum fjölmiðlum að þetta þyki vera mikið högg fyrir Assange, sem er fimmtugur Ástrali, sem hefur í áraraðir reynt að komast hjá framsali, en hann er m.a. sakaður um njósnir í Bandaríkjunum.

Lögmenn Assange hafa tök á að áfrýja niðurstöðunni.

Í janúar komst breskur héraðsdómari að þeirri niðurstöðu að Assange yrði ekki framseldur vegna áhyggja um geðheilsu hans og að sú hætta væri fyrir hendi að hann myndi reyna sjálfsvíg í bandarísku fangelsi.

Bandarísk stjórnvöld hafa viljað draga Assange fyrir dómstóla í Bandaríkjunum fyrir að hafa árið 2010 birt leynileg skjöl bandaríska hersins um stríðreksturinn í Afganistan og Írak.

Tveggja daga vitnaleiðslur fóru fram í október þar sem bandarískir lögmenn héldu því fram að dómarinn sem kvað upp sinn úrskurð í janúar hefði ekki tekið almennilega til greina aðra vitnisburði sérfræðinga sem höfðu metið geðheilsu Assange.

Þá reyndu þeirra að sannfæra dómstólinn um að Assange yrði ekki vistaður á einangrun í hámarksöryggisfangelsi og að hann myndi hljóta viðeigandi meðferð.

Í kjölfar niðurstöður yfirréttarins þá fer málið aftur til meðferðar hjá héraðsdómi. Stella Moris, unnusta Assange, segir að málinu verði áfrýjað sem fyrst.

Málið gegn Assange hefur staðið yfir í áratug þar sem stuðningsmenn Assange halda því fram að Wikileaks eigi sama rétt og aðrir fjölmiðlar til að birta leyniskjöl sem varða almannahagsmuni.

Stuðningsmenn Assange fjölmenntu fyrir utan dómstólinn í dag, veifuðu spjöldum og kröfuðust lausnar hans, en Assange hefur setið á bak við lás og slá í öryggisfangelsi í suðausturhluta London.

Ákæra bandarískra yfirvalda á hendur Assange er í 18 liðum sem tengjast birtingu Wikileaks á um 500.000 leyniskjölum varðandi þátttöku Bandaríkjanna í stríðsátökunum í Afganistan og í Írak.

Verði Assange framseldur, réttað yfir honum og hann sakfelldur, þá gæti hann átt yfir höfði sér 175 ára fangelsi.

Hann hefur verið í haldi frá árinu 2019, þrátt fyrir að hafa tekið út refsingu fyrir að hafa brotið gegn skilorði í öðru máli. Áður dvaldi hann alls í um sjö ár í sendiráði Ekvador í London til að komast hjá því að hann yrði framseldur til Svíþjóðar þar sem hann var ásakaður um kynferðisbrot. Það mál var síðar fellt niður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert