Saksóknararnir hafa lokið máli sínu

Á þessari teikningu úr dómsal sést Ghislaine Maxwell á miðri …
Á þessari teikningu úr dómsal sést Ghislaine Maxwell á miðri mynd ásamt tveimur lögreglumönnum. AFP

Saksóknarar í málinu yfir Ghislaine Maxwell, sem ákærð er fyrir aðild að mansali eiginmanns síns heitins, Jeffrey Epstein, hafa lokið málflutningi sínum eftir tveggja vikna langt dómshald.

Annie Farmer, síðust fjögurra vitna til þess að gefa skýrslu fyrir dómi, lýsti „dökkri minningu“ sem hún átti af ofbeldi Maxwell og Epstein.

Í frétt BBC segir að Farmer, sem í dag er 42 ára gömul, hafi sagt Epstein hafa þuklað á sér. Epstein níddist á ungum stelpum á árunum 1994-2004. Hann tók eigið líf í fangelsi árið 2019.

Maxwell neitar enn sök í málinu.

Saksóknarar mætt hindrunum

Síðustu tvær vikur hafa saksóknarar leitast við að færa sönnur fyrir því að Maxwell hafi verið í vitorði með Epstein. Þeir segja að hún hafi hjálpað Epstein við að búa til „pýramídasvindl kynferðisofbeldis“.

Verjendur Maxwell segja að verið sé að gera blóraböggul úr henni vegna glæpa Epsteins, þar sem ekki er lengur hægt að rétta yfir honum.

Ólíkt hinum þremur konunum sem lýstu ofbeldi Maxwell og Epsteins fyrir dómi síðustu tvær vikur, gekk Farmer ekki undir dulnefni.

„Ég er Annie Farmer,“ sagði hún við upphaf vitnisburðar síns.

Í greiningu á þeim fréttum sem borist hafa af réttarhöldunum segir Nada Tawfik, fréttamaður BBC í New York, að réttarhöldin taki styttri tíma en búist var við.

Í fyrstu höfðu saksóknarar gert ráð fyrir að réttarhöldin tækju um fjórar vikur en þeir hafa lokið málflutningi sínum eftir aðeins um tíu daga.

„Þeir [saksóknararnir] hafa vafalaust mætt hindrunum. Ekki var hægt að hringja í nokkur vitnanna, þar á meðal bróður eins þolandans. Og dómarinn úrskurðaði að vegna þess að tvær konurnar voru á samþykkisaldri þegar meint brot voru framin, að ekki væri um lögbrot að ræða í þeim tilfellum,“ segir Tawfik meðal annars í fréttaskýringu sinni.

mbl.is