Veiran hafi líklegast lekið af rannsóknastofu

Vitað er að veiran barst frá Wuhan um heimsbyggðina.
Vitað er að veiran barst frá Wuhan um heimsbyggðina. AFP

Leki af rannsóknastofu þykir nú líklegasti uppruni kórónuveirunnar, sem veldur sjúkdómnum Covid-19. Þetta hefur vísinda- og tækninefnd breska þingsins verið tjáð. 

Dr. Alina Chan, sérfræðingur í genameðferðum og frumuverkfræði við MIT- og Harvard-háskóla, sagði nefndinni einnig að mögulega hefði veiran verið búin til á rannsóknastofunni.

Eftir tveggja ára leit hafi enn ekki fundist dýr með veiruna í grennd við borgina Wuhan, þar sem hennar varð fyrst vart.

Barn bólusett í Wuhan í nóvember.
Barn bólusett í Wuhan í nóvember. AFP

Ekki öruggt fyrir fólk að stíga fram

„Ég tel að uppruni á rannsóknastofu sé líklegri en ekki,“ sagði dr. Chan. 

„Akkúrat núna er ekki öruggt fyrir fólk, sem þekkir uppruna faraldursins, að stíga fram. En við erum uppi á tímum þar sem svo mikið magn upplýsinga er geymt, að þær munu á endanum koma í ljós.“

Þegar hefðu margir framúrskarandi veirufræðingar sagt það raunhæfan möguleika að veiran hefði verið búin til.

„Og þar á meðal eru veirufræðingar sem gerðu breytingar á fyrstu Sars-veirunni,“ bætti hún við, en fjallað er um málið á vef breska dagblaðsins Telegraph.

Vildu horn á hesta og svo kom einhyrningur

„Við vitum að þessi veira er með einstakan eiginleika, sem kallast klofningssvæði fúríns (e. furin cleavage site), og án þessa eiginleika þá er útilokað að hún væri að valda þessum faraldri,“ sagði dr. Chan.

Benti hún á tillögu hefði verið lekið, sem sýndi að sjálfseignarstofnunin EcoHealth og Veirufræðistofnunin í Wuhan voru að búa til ferli til að bæta við nýjum klofningssvæðum fúríns.

„Þannig að, þú ert með þessa vísindamenn sem segja snemma á árinu 2018: „Ég ætla að setja horn á hesta“, og í lok árs 2019 skýtur einhyrningur upp kollinum í Wuhan-borg.“

Ofangreint klofningssvæði hefur verið talið ástæðan fyrir því að veiran er eins smitandi og raun ber vitni.

Frá breska þinginu fyrr í vikunni.
Frá breska þinginu fyrr í vikunni. AFP

Ekkert dýr fundist

Vísigreifinn Ridley, sem situr í lávarðadeildinni og hefur ásamt dr. Chan skrifað bók um uppruna veirunnar, sagðist einnig þeirrar skoðunar að líklegast hefði veiran lekið af rannsóknastofu.

Tjáði hann þingmönnum: 

„Ég tel einnig að það sé líklegra en ekki, vegna þess að við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að eftir tvo mánuði vissum við uppruna Sars-veirunnar, og eftir nokkra mánuði vissum við að Mers-veiran hefði komið frá kameldýrum, en eftir tvö ár höfum við ekki enn fundið eitt einasta sýkta dýr sem gæti hafa komið þessu af stað, og það kemur ótrúlega mikið á óvart.“

Forðuðust ágreining við Kína

Dr. Peter Emba­rek, sem leitt hefur hóp á veg­um Alþjóðaheil­brigðis­stofn­un­ar­inn­ar til að kanna hvernig far­ald­ur­inn hófst, sagði í ágúst að kín­versk­ur vís­indamaður gæti hafa hrundið honum af stað.

Rann­sak­end­ur WHO hafi aftur á móti neyðst til að kom­ast að þeirri niður­stöðu að leki frá rann­sókna­stofu væri „ákaf­lega ólík­leg­ur“ í op­in­berri skýrslu sinni, til þess að forðast frek­ari ágrein­ing við kín­versk stjórn­völd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert