Finnar bólusetja 5-11 ára börn

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands.
Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands. AFP

Finnsk stjórnvöld hafa ákveðið að hefja bólusetningar á fimm til ellefu ára gömlum börnum vegna Covid-19.


Finnar greindu frá þessu í dag en Finnland, líkt og fjölmörg önnur vestræn ríki, standa nú frammi fyrir hverjum metdeginum á fætur öðrum hvað varðar smittölur. 

Haft er eftir stjórnendum innan heilbrigðisráðuneytisins að hægt sé að hefja bólusetningar þessa aldursbils barna strax eftir áramót, á fréttastofu AFP. 

Hingað til hafa einungis börnum í viðkvæmum hópum á þessum aldri boðist bólusetning. 

Þá hafa Finnar nýlega gripið til hertra sóttvarnaaðgerða til þess að tempra jóladrykkju sem og hert á takmörkunum á landamærum landsins. 

Ekkert áfengi eftir klukkan 17

„Við erum að kaupa meiri tíma til að ganga úr skugga um að ekki stafi alvarleg þjóðarógn af Ómíkron-afbrigðinu,“ sagði Krista Kiuru félag- og fjölskyldumálaráðherra á blaðamannafundi um ákvörðunina.

Barir í Finnlandi skulu hætta að afgreiða áfengi klukkan 21 á aðfangadagskvöld. Þriggja vikna áfengissölubann eftir klukkan 17 mun síðan gilda á börum og veitingastöðum frá og með 28. desember.

Tilmæli hafa verið gefin út til sveitarstjórna um að banna stórar samkomur eins og íþróttaviðburði og tónleika með ónúmeruðum sætum og háskólum verður ráðlagt að færa kennslu yfir í fjarkennslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert