Joe Biden hrekktur í beinni útsendingu

Joe Biden forseti í útsendingunni í gærkvöldi.
Joe Biden forseti í útsendingunni í gærkvöldi. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti var hrekktur í símtali í gærkvöldi þegar viðmælandi hans og forsetafrúarinnar Jill Biden sagði: „Let's Go Brandon“ áður en símtalinu var slitið.

Þessi kveðja, sem útlagst gæti á íslensku sem „Áfram Brandon“, er orðin þekkt á meðal stuðningsmanna Donalds Trumps fyrrverandi forseta.

Í þeirra huga þýðir hún þó í raun: „Fjandinn hirði Joe Biden.“ Nú eða: „Fuck Joe Biden.“

Myndskeiðið af kveðjunni hefur dreifst hratt um samfélagsmiðla, en hún kom í lok eins af þeim símtölum sem forsetinn tók á móti í gær frá nokkrum bandarískum fjölskyldum, í tilefni af jólahaldinu sem þá var fram undan.

„Áfram Brandon, ég er sammála“

Þessi viðmælandi kvaðst vera fjögurra barna faðir að nafni Jared. Ræddi forsetinn stuttlega við börn hans, spurði hvaða gjafir þau vildu um jólin og sagði þeim að þau þyrftu að fara í háttinn fyrir miðnætti. Þá benti hann á að bæði hann og Jared ættu son að nafni Hunter.

Loks óskaði hann Jared gleðilegra jóla, sem Jared gerði sömuleiðis, áður en hann bætti svo þessari frægu setningu við.

„Áfram Brandon, ég er sammála,“ svaraði forsetinn án þess að bregðast sérstaklega við. Ekki er ljóst hvort hann hafi vitað til hvers var vísað, en forsetafrúin virtist ranghvolfa augunum.

Biden spurði í kjölfarið hvaðan Jared væri að hringja, en þá hafði símtalinu verið slitið.

Hvers vegna „Let's Go Brandon“?

Kveðjan á uppruna sinn að rekja til fréttamanns sem kvaðst hafa misheyrt köll áhorfenda á NASCAR-kappaksturskeppni, en þeir kölluðu í sameiningu „Fuck Joe Biden“, á sama tíma og hann var að ræða við ökuþórinn Brandon Brown í september.

Stuðningsmenn Trumps hafa síðan tekið þetta upp sem nokkurs konar slagorð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert