Einungis um góðlátlegt spaug að ræða

Jill og Joe Biden í útsendingunni á aðfangadag.
Jill og Joe Biden í útsendingunni á aðfangadag. AFP

Jared Schmeck, viðmælandi Joes Bidens Banda­ríkja­for­seta í útsendingu á aðfangadag, sem vann sér til frægðar að hrekkja Biden, sagði að meiningin hefði ekki verið illkvittni heldur hefði einungis verið um spaug að ræða.

Schmeck sagði í símtali við Biden „Let's Go Brandon“ eða „Áfram Brandon“ en kveðjan er orðin þekkt á meðal stuðnings­manna Don­alds Trumps fyrr­ver­andi for­seta. Í þeirra huga þýðir hún þó í raun: „Fjand­inn hirði Joe Biden.“ Nú eða: „Fuck Joe Biden.“

„Þegar allt kemur til alls hef ég ekkert á móti herra Biden, en ég er óánægður af því ég held að hann gæti gert betur. Ég er ekki að vanvirða hann,“ sagði hinn 35 ára gamli Schmeck í viðtali við dagblaðið the Oregonian.

Schemck segist ekki vera gallharður stuðningsmaður Trumps heldur „Bandaríkjamaður með frjálsa hugsun og fylgjandi Jesú Krists“.

Mynd­skeiðið af kveðjunni hef­ur dreifst hratt um sam­fé­lags­miðla og sagði Schmeck að hann hefði orðið fyrir „árásum fyrir að nýta rétt sinn til tjáningarfrelsis“.

Grein á vef The Guardian.

mbl.is