Einangrunartími sýktra verði helmingaður

Rochelle Walensky, forstjóri Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna.
Rochelle Walensky, forstjóri Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna. AFP

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) hefur mælt með því að stytta einangrunartíma Covid-smitaðra einstaklinga sem eru einkennalausir um helming, eða úr tíu dögum í fimm. 

Í tilkynningu frá stofnuninni segir að Ómíkron-afbrigðið breiðist nú hratt um Bandaríkin og muni hafa áhrif á samfélagið í heild.

Vegna þess mæli stofnunin nú með því að helminga einangrunartíma einkennalausra, til þess að fólk geti haldið áfram að lifa sínu daglega lífi.

Gríma næstu fimm daga

Stofnunin mælir með því að eftir að einstaklingur hefur lokið fimm daga einangrun skuli hann bera grímu næstu fimm daga þegar hann er í kringum annað fólk. 

Í tilkynningunni segir einnig að ákvörðun stofnunarinnar sé tekin með tilliti til rannsókna sem sýnt hafi fram á að meirihluti Covid-smita eigi sér stað einum til tveimur dögum áður en einstaklingur sýnir einkenni og einnig næstu tvo til þrjá daga eftir að einkenni koma fram.

mbl.is