Hvetja Rússa til að láta af einhliða kröfum

Úkraínskir hermenn við æfingar Donetsk-héraði landsins í liðinni viku.
Úkraínskir hermenn við æfingar Donetsk-héraði landsins í liðinni viku. AFP

Tyrknesk stjórnvöld hvöttu í dag Rússa til að láta af einhliða kröfum og taka upp uppbyggilegra samtal í deilu sinni við Vesturveldin og Atlantshafsbandalagið (NATO) varðandi stöðu mála í Úkraínu.

Stjórnvöld í Rússlandi eru ósátt við að Tyrkir, sem eiga aðild að NATO, hafi útvegað Úkraínumönnum hernaðardróna sem Rússar óttast að úkraínski herinn gæti notað kæmi til átaka við aðskilnaðarsinna í tveimur héruðum í austurhluta landsins. 

Tyrkir hafa að sama skapi pirrað NATO og Bandaríkjamenn með því að kaupa eldflaugavarnarkerfi af Rússum sem leiddi til þess að bandarísk stjórnvöld samþykktu að beita Tyrki efnahagsþvingunum. 

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands.
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands. AFP

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, hvatti í dag stjórnvöld í Rússlandi og NATO til að setjast að samningaborðinu til að leysa sín deilumál, líkt og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur lagt til.

Rússar krefjast þess að fá bindandi tryggingu fyrir því að NATO færi allt sitt herlið aftur á þau svæði sem þau héldu áður en hersveitirnar færðu sig austar í kjölfar falls Sovétríkjanna. 

„Eigi tillaga að hljóta samþykki, þá ætti hún að vera ásættanleg fyrir báða aðila. Rússar hafa komið fram með nokkrar tillögur. En svo getur verið að NATO óski eftir svipuðum tryggingum gagnvart Rússum. Þetta er ekki einhliða mál,“ sagði Cavusoglu við fréttamenn. 

Talsmaður NATO segir að bandalagið hafi verið í sambandi við Rússa varðandi það að halda fund í sameiginlegu ráði NATO og Rússlands 12. janúar. Rússnesk stjórnvöld hafa ekki samþykkt boðið með formlegum hætti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert