Ghislaine Maxwell sakfelld

Maxwell er 60 ára gömul.
Maxwell er 60 ára gömul. AFP

Ghislaine Maxwell hefur verið sakfelld fyrir að hafa útvegað vini sínum og fyrrverandi kærasta, kynferðisafbrotamanninum Jeffrey Epstein, stúlkur undir lögaldri, sem hann síðan braut á kynferðislega. 

Einnig var hún sakfelld fyrir kynlífsglæpi og mansal barna og ungra kvenna.

Maxwell var sakfelld í fimm af sex ákæruliðum af tólf manna kviðdómi í New York í kvöld.

Hún gæti átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi. Fangelsisdómur fyrir mansal sem Maxwell er sakfelld fyrir er í mesta lagi 40 ár. Maxwell á yfir höfði sér fimm til tíu ára fangelsisdóm fyrir hina ákæruliðina. Maxwell er 60 ára gömul. 

Sakfelld í öllum nema einum ákærulið 

Fyrsti ákæruliðurinn sem Maxvell var sakfelld fyrir var samsæri um að tæla ólögráða stelpur til ferðalaga og taka þátt í ólöglegu kynlífsathæfi. Þar er fjallað um að Maxwell hafi vitandi og viljandi tekið þátt í því að skipuleggja og tæla ólögráða stúlkur til þess að ferðast yfir ríkislínur og taka þátt í ólöglegu kynlífsathæfi. Brotin áttu sér stað frá 1994 til 2004 og á við fjölmörg fórnalömb. Hámarksfangelsisdómur fyrir þennan lið er fimm ár.

Í ákærulið þrjú er Maxwell sakfelld fyrir samsæri um að flytja ólögráða stúlkur með þeim ásetningi að taka þátt í ólöglegu kynlífsathæfi. Þessi ákæruliður er í raun framhald af fyrsta nema hér er hún einnig ákærð fyrir að hafa vitandi vits tekið þátt í því að plana og tæla ólögráða stúlkur til þess að ferðast. Hámarksfangelsisdómur fyrir þennan lið er fimm ár.

Maxwell er sakfelld í ákærulið fjögur fyrir flutning á ólögráða stúlkum með þeim ásetningi að taka þátt í ólöglegu kynlífsathæfi. Maxwell hjálpaði stúlku að nafni Jane að ferðast milli ríkja, frá 1994 til 1997, með þeim ásetningi að hún myndi stunda kynlíf með Epstein. Fyrrverandi flugmaður Epsteins bar vitni og sagði að kona að nafni Jane hefði reglulega flogið til og frá Michigan um borð einkaþotu Epsteins. Hámarksfangelsisdómur fyrir þetta brot er tíu ár.

Mansal á ólögráða stúlkum

Í ákærulið fimm er Maxwell sakfelld fyrir samsæri um mansal ólögráða stúlkna. Hér braut Maxwell af sérmeð því að hafa vitandi og viljandi tekið þátt í að tæla ólögráða stelpur með þeirri ætlun að nauðga þeim, þvinga þær og plata. Þetta á við um fjölmörg fórnarlömb frá árinu 1994 til 2004. Hámarksfangelsisdómur fyrir þennan lið er fimm ár.

Alvarlegasti ákæruliðurinn er sá sjötti en þar er Maxwell kærð fyrir mansal á ólögráða stúlkum. Hér er Maxwell ákærð fyrir að hafa tælt ólögráða stelpu að nafni Carolyn og þvingað hana til þess að stunda kynlíf með Epstein.

Þessi brot áttu sér stað milli áranna 2001 og 2004. Carolyn lýsti fyrir kviðdómendum þeim mörg hundruð skiptum sem henni var borgað fyrir að stunda kynlíf með Epstein í Flórída þegar hún var á aldrinum 14-18 ára. Hámarksfangelsisdómur fyrir þetta brot er 40 ár.

Þegar dómari kynnti niðurstöðu málsins sýndi Maxwell engar tilfinningar heldur fékk sér aðeins vatn að drekka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert