Heilbrigðisstarfsmenn fá fjórða skammtinn

Í dag greindust 4.206 með veiruna í Ísrael
Í dag greindust 4.206 með veiruna í Ísrael AFP

Naftali Bennet, forsætisráðherra Ísraels, tilkynnti í dag að fjórði bóluefnaskammturinn gegn Covid-19 yrði gefinn heilbrigðisstarfsmönnum og þeim sem eru eldri en sextíu ára, vegna fjölda Ómíkron-smita í landinu.

Bennet segir Ómíkron-bylgjuna komna til Ísraels og því sé mikilvægt að verja þá sem eru eldri og í framlínunni.

Heilbrigðisráðuneytið heimilaði hópunum að fá fjórða skammtinn fyrr í dag.

Á fimmtudaginn tilkynntu yfirvöld í Ísrael að heilbrigðisráðuneytið hefði samþykkt að gefa þeim sem eru í áhættuhópi fjórða skammtinn af bóluefni. Ísrael var eitt af fyrstu löndunum til þess að leyfa fjórða skammtinn.

Í dag greindust 4.206 með veiruna í Ísrael og varaði Bennet við því að líklegt væri að Ísraelar færu að sjá 50 þúsund smit á dag og hvatti alla til þess að fara í bólusetningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert