Bandaríkin á brún hyldýpis

Stuðningsmenn Trumps kljást við lögreglu fyrir utan þinghúsið.
Stuðningsmenn Trumps kljást við lögreglu fyrir utan þinghúsið. AFP

Ár er í dag liðið frá því þúsundir stuðningsmanna Donalds Trumps, þáverandi Bandaríkjaforseta, réðust inn í þinghúsið í höfuðborginni Washington í von um að koma í veg fyrir að kosningasigur Joe Biden yrði staðfestur. En hvað gerðist þennan dag?

Aðdraganda árásarinnar á þinghúsið má rekja til herferðar Trumps, „Stop the Steal“ eða „Stöðvið stuldinn“, sem rekin var að loknum kosningunum 6. nóvember og einkenndist af ásökunum um að kosningunum, og sigri Trumps, hefði verið stolið af Biden og demókrötum.

Skoðanakannanir í dag sýna að tveir þriðju þeirra Bandaríkjamanna sem styðja repúblikana trúa því enn að Biden sé ekki réttkjörinn forseti.

Þingmenn komu saman þennan dag í Washington til að staðfesta niðurstöður kosninganna. Þá þegar hafði tugum kæra repúblikana verið vísað frá dómstólum og endurtalningar í lykilríkjum á sama tíma sannreynt sigur Bidens.

Trump ávarpar stuðningsmenn sína og hvetur þá til að fara …
Trump ávarpar stuðningsmenn sína og hvetur þá til að fara að þinghúsinu. AFP

Þurfi að berjast

Skömmu fyrir árásina á þinghúsið ávarpar Trump stuðningsmenn sína undir beru lofti nærri Hvíta húsinu. Endurtekur hann þar áróður sinn um að átt hafi verið við úrslit kosninganna.

Stuðningsmenn hans þurfi að „berjast eins og helvíti“ til að koma í veg fyrir að kosningunum yrði „stolið“.

Á sama tíma gefur varaforsetinn Mike Pence út yfirlýsingu, þar sem hann tekur fram að hlutverk sitt við staðfestingu úrslitanna sé aðallega formlegt. Með þessu segir hann í raun að hann muni ekki gera eins og Trump hafði þrýst á um.

„Eiður minn, til að styðja og vernda stjórnarskrána, hamlar mér frá því að taka mér einhliða það vald að skera úr um hvaða atkvæði skuli talin og hver skuli ekki talin,“ skrifar hann.

„Við ætlum að þinghúsinu“

Trump lýkur ræðu sinni á þessum orðum:

„Við ætlum að þinghúsinu. Við ætlum að reyna að gefa þeim [repúblikönum] stoltið og hugrekkið sem þeir þurfa til að ná landinu okkar aftur.“

Sjálfur fer hann svo ekki að þinghúsinu, heldur í Hvíta húsið.

En þá þegar hafa stuðningsmenn hans brotið sér leið inn um ystu öryggisgirðingar þinghússins.

Brjóta sér leið að húsinu

Inni í þinghúsinu rís John Gosar, þingmaður repúblikana frá Arizona, úr sæti sínu og andmælir niðurstöðum talningar atkvæða í sínu ríki. Samflokksmaður hans og öldungadeildarþingmaður frá Texas, Ted Cruz, kveðst styðja andmælin.

Fulltrúadeildin og öldungadeildin snúa þá hvor í sinn hluta hússins, til að ræða það sem þingmaðurinn lagði fram.

Skömmu síðar, eða um kl. 13.30 að staðartíma, yfirbuga stuðningsmenn forsetans lögreglu og brjóta sér leið að húsinu sjálfu, á meðan lögregla hörfar inn í bygginguna.

Einn stuðningsmanna Trumps kallar á fólk og hvetur það til …
Einn stuðningsmanna Trumps kallar á fólk og hvetur það til innrásar í þinghúsið. AFP

Mikilvægasta atkvæðið á 36 ára ferli

Þingmenn virðast ekki átta sig á stöðunni sem upp er komin. Í öldungadeildinni tekur leiðtogi repúblikana, Mitch McConnell, til máls.

Hann tekur fram að hann hafi verið öldungadeildarþingmaður í 36 ár, en að atkvæði hans í þessu máli verði það mikilvægasta sem hann hafi nokkurn tíma greitt.

„Kjósendur, dómstólar og ríkin hafa öll talað. Þau hafa öll talað,“ segir hann. „Ef við höfnum þeim, þá mun það skaða lýðveldi okkar um alla framtíð.“

Rörsprengjur í Washington

Um sama leyti og McConnell reynir að kveða samsæriskenningar forsetans í kútinn, finnast grunsamlegir pakkar við höfuðstöðvar beggja stjórnmálaflokka í höfuðborginni. Byggingar í grennd við pakkana eru rýmdar. Síðar kemur í ljós að pakkarnir voru rörsprengjur.

Enn er ekki ljóst hver var á bak við sprengjurnar, eitt einkennilegasta og mögulega hættulegasta atvik þessa atburðaríka dags, eins og fjallað er um í tímaritinu Atlantic í dag.

Upp úr klukkan 14 brjóta stuðningsmenn forsetans sér leið inn í þinghúsið. Lífvarðaþjónusta æðstu ráðamanna fjarlægir varaforsetann þá snögglega úr sal öldungadeildarinnar. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, er að sama skapi flutt á brott.

Ein af hetjum dagsins

Um klukkan 14.20 er hlé gert á fundum beggja deilda.

Á sama tíma reynist þinglögregluþjónninn Eugene Goodman ein af hetjum dagsins, þegar hann hjálpar öldungadeildarþingmanninum Mitt Romney í öruggt skjól og dregur svo til sín stuðningsmenn forsetans sem annars hefðu farið inn í sal öldungadeildarinnar.

Brjótast inn á skrifstofur

Klukkan er 14.24 og Donald Trump Bandaríkjaforseti tístir eftirfarandi:

„Mike Pence hafði ekki hugrekkið til að gera það sem hefði þurft að gera til að vernda landið okkar og stjórnarskrána.“

Hann heldur svo áfram með órökstuddar fullyrðingar um kosningasvindl andstæðinga sinna.

Rétt fyrir klukkan 15 brýst múgurinn inn í sal öldungadeildarinnar. Margir stökkva af svölunum og á gólf salarins. Þeir fara svo upp í ræðustól, taka myndir og blaða í þeim gögnum sem þingmenn hafa  skilið eftir.

Ekki eru þó allir þar. Margir finna sér leið um ganga þinghússins og berja á dyr, eyðileggja muni og brjótast inn í skrifstofur þingmanna, þar á meðal skrifstofu forseta fulltrúadeildarinnar.

Richard Barnett, stuðningsmaður Donalds Trumps, við skrifborð Pelosi.
Richard Barnett, stuðningsmaður Donalds Trumps, við skrifborð Pelosi. AFP

Verður að enda þetta

Upp úr klukkan 15 tístir Mike Gallagher, þingmaður repúblikana frá Wisconsin, myndskeiði sem sýnir hvar hann hefur leitað skjóls á skrifstofu sinni. Segir hann þetta vera afleiðingu þess þegar fólki er tjáð að snúa megi við úrslitum kosninga.

„Herra forseti, þú verður að enda þetta. Þú ert sá eini sem getur sagt þessu lokið. Segðu þessu lokið. Kosningarnar eru yfirstaðnar. Segðu þessu lokið.“

Þjóðvarðlið fari að þinghúsinu

Um sama leyti yfirbugar hópur stuðningsmanna nokkra lögregluþjóna sem gæta inngangs í sal þar sem þingmenn hafa leitað skjóls. Þeir brjóta glugga og reyna að þvinga sér inn í salinn.

Einn lögregluþjónanna skýtur Ashli Babbitt, þar sem hún reynir að klifra í gegnum dyrnar. Hún lætur síðar lífið af völdum þessa.

Klukkan 15.36 segir upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, Kayleigh McEnany, að forsetinn hafi skipað þjóðvarðliði að fara að þinghúsinu. Liðnir eru meira en tveir tímar frá því múgurinn braut sér fyrst leið framhjá öryggisgirðingum, eins og NPR greinir frá.

Útgöngubanni lýst yfir

Klukkan 16.17, eftir að verðandi forsetinn Biden hafði ávarpað þjóðina og kallað eftir því að Trump krefðist þess að stuðningsmenn hans létu af þessu, sendir Trump frá sér tíst þar sem hann talar einmitt til stuðningsmanna sinna.

„Ég þekki sársaukann ykkar. Ég veit hvernig þið eruð særð. Við elskum ykkur. Þið eruð mjög sérstök. Þið hafið séð hvað gerist. Þið hafið séð hvernig komið er fram við aðra ... Ég veit hvernig ykkur líður, en farið heim, og farið heim í friði.“

Tæpum tveimur tímum síðar byrjar lögregla að rýma þinghúsið af mótmælendum og klukkan 18 lýsir borgarstjórinn Muriel Bowser yfir tólf tíma útgöngubanni.

Stuðningsmenn forsetans undu sér margir vel í þinghúsinu.
Stuðningsmenn forsetans undu sér margir vel í þinghúsinu. AFP

Heilagur yfirburðasigur

Trump grípur enn á ný til Twitter og tístir:

„Þetta eru hlutirnir og atburðirnir sem gerast þegar heilagur yfirburðakosningasigur er svona gróflega og harkalega tekinn frá miklum föðurlandsvinum, sem komið hefur verið illa og ósanngjarnt fram við svo lengi. Farið heim með ást og í friði. Munið þennan dag að eilífu!“

Klukkutíma síðar fjarlægir Twitter öll tíst forsetans frá þessum degi og lokar aðgangi hans í tólf tíma. Síðar átti aðganginum eftir að verða lokað fyrir fullt og allt.

Rétt eftir klukkan 20 setur Pence fund öldungadeildarinnar að nýju.

Bandaríkin vega salt

Klukkan er 3.42 að nóttu, aðfaranótt 7. janúar, þegar Pence staðfestir að meirihluti atkvæða kjörmanna hafi fallið Joe Biden í skaut.

Síðan þá hafa um 725 manns verið handteknir í tengslum við árásina á þinghúsið. Og yfirmaður þinglögreglunnar, Thomas Manger, sagði í gær að aldrei aftur verði hægt að koma lögregluliðinu að óvörum, eins og gerðist í fyrra.

En þó þinghúsið sé öruggara, þá gegnir ef til vill öðru máli um lýðræðið.

Jimmy Carter, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, skrifaði í New York Times í gær að Bandaríkin vegi nú salt á brún hyldýpis, sem fari breikkandi.

„Án tafarlausra aðgerða eigum við raunverulega hættu á borgarastyrjöld og að missa okkar dýrmæta lýðræði. Bandaríkjamenn verða að setja ágreining sinn til hliðar og vinna saman, áður en það er um seinan,“ skrifaði Carter.

Friðsamlegt var fyrir utan þinghúsið nú á þriðjudag.
Friðsamlegt var fyrir utan þinghúsið nú á þriðjudag. AFP
mbl.is