Górillur í útrýmingarhættu fjölga sér

Þessi górilluungi fæddist í Rúanda síðasta haust.
Þessi górilluungi fæddist í Rúanda síðasta haust. AFP

Lowland-górilla hefur fæðst í Virunga-þjóðgarðinum í Lýðveldinu Kongó en górillur af þeirri tegund eru í bráðri útrýmingarhættu, að því er segir á vef The Guardian. Með fæðingu górilluungans eru Lowland-górillurnar nú orðnar sjö talsins í garðinum.

„Við erum spennt að segja frá fæðingu fyrstu Lowland-górillu ársins! Þjóðgarðsverðir fundu nýburann á Tshiaberimu-svæðinu í gær,“ tístu yfirvöld í garðinum og bættu við:

„Þjóðgarðsverðir vinna nú hörðum höndum að því að vernda þennan viðkvæma hóp sem nú telur sjö einstaklinga.“

Górillunum fækkað úr 17.000 í 6.000

Lowland-górillum hefur fækkað verulega en þær eru í dag færri en 6.000 en voru um 17.000 talsins. Górillunum fækkar um 5% á ári hverju samkvæmt upplýsingum frá Virunga-þjóðgarðinum.

Auk Lowland-górillanna dvelja fjallagórillur einnig í garðinum en sautján slíkar fæddust í garðinum á síðasta ári. Virunga-þjóðgarðurinn er á landamærum Lýðveldisins Kongós, Rúanda og Úganda og þekur um 7.800 ferkílómetra landsvæði.

Sjá má twitterfærslu þjóðgarðsins hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert