Hrasaði um 4.000 ára gamalt horn

Svona lítur rúmlega 4.000 ára gamalt hreindýrshorn út, eins og …
Svona lítur rúmlega 4.000 ára gamalt hreindýrshorn út, eins og hvert annað bein. Prófessorar við Háskólann í Bergen ráða sér þó vart af kæti yfir þeim upplýsingum sem höfuðprýði löngu horfins dýrs býr yfir í krafti erfðarannsókna 21. aldarinnar. Ljósmynd/Úr einkasafni

„4.167 ára gamalt, ég var alveg bit,“ játar Torstein Opskar frá Skodje, litlu þorpi sem eitt sinn var eigið sveitarfélag en hefur nú sameinast Ålesund í norska fylkinu Mæri og Raumsdal. Hann er að greina norska ríkisútvarpinu NRK frá ævafornu hreindýrshorni sem hann nánast datt um þegar hann gekk á fjallstindinn Ceciliekrune í Oldedalen í Vestland í fyrra ásamt félaga sínum Nils Petter Starheimsæter.

Þeir félagar gengu við jökulbrún í 1.700 metra hæð yfir sjávarmáli þegar Opskar rak fótinn í hornið sem greinilega hafði komið fram undan hopandi ísröndinni nýlega. „Ég hugsaði með mér að þetta gæti verið kannski 200 ára gamalt horn eða svo og setti það í bakpokann minn,“ segir hann frá og hugsaði svo ekki meir um hreindýrshornið að sinni.

Ekki fyrr en...

hann las um annan göngugarp sem fann mörg þúsund ára gamalt hreindýrshorn á Leirvasshornet í fyrra, þá hafði hann af rælni samband við Atle Nesje, prófessor í jarðfræði við Háskólann í Bergen, og vakti þegar áhuga hans.

Fóru leikar svo að Nesje sendi hornið til Póllands í nákvæma aldursgreiningu og þaðan barst niðurstaða með ártali sem erfitt er að gera sér í hugarlund á nýbyrjuðu ári 2022 eftir Krist. Hreindýrshornið sem jökullinn skilaði úr greipum sínum hafði legið í ísnum allar götur síðan árið 2146 fyrir Krist, í tæplega 4.200 ár, og hefur varðveist nær óaðfinnanlega.

„Hefði hornið ekki verið í ísnum allan tímann hefði það vafalaust verið máðara og langt frá því að vera svo vel varðveitt sem raun er á,“ segir Nesje við staðarblaðið Fjordingen sem fyrst greindi frá fundi hornsins. Anne Karin Hufthammer, prófessor við náttúrusögudeild Háskólans í Bergen, deilir áhuga starfsbróður síns og segir hornið geta gefið vísbendingar um þróun jökulsins yfir þúsundir ára.

„Enn þá meira spennandi eru auðvitað þeir möguleikar á erfðarannsóknum sem hornið býður upp á,“ segir Hufthammer, en innan hennar fræðigreinar ríkir áhugi á uppruna norska hreindýrastofnsins sem vitað er að á ættir að rekja hvort tveggja í austur og vestur. Við lok ísaldar voru hreindýr við vesturströnd Noregs en úr austri kom rússneskur hreindýrastofn sem fetaði sig gegnum Austur-Finnmörk og þaðan suður eftir Noregi.

Þróun erfðavísindanna leifturhröð

Síðustu ár hafa Háskólanum í Bergen áskotnast um 50 hreindýrahorn sem komið hafa undan jöklum og geta DNA-greiningar þeirra veitt ýmsar upplýsingar um dreifingu mismunandi hreindýrastofna um Noreg í fyrndinni. Horn, sem fundist hafa við fornleifauppgröft, nýtast síður til slíkra rannsókna þar sem þau eru oft brotin og brennd af manna völdum. Annað er hins vegar upp á teningnum þegar hornin hafa legið ósnert í ísnum um árþúsundir.

Fjallagarparnir og ferðafélagarnir Torstein Opskar (t.h.) og Nils Petter Starheimsæter …
Fjallagarparnir og ferðafélagarnir Torstein Opskar (t.h.) og Nils Petter Starheimsæter á leið á Ceciliekruna með hrikalegt landslagið, sem er svo einkennandi fyrir vesturströnd Noregs, í baksýn. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Þróunin er leifturhröð. Það er fyrst núna síðustu 20 til 30 árin sem erfðarannsóknum hefur fleygt fram að ógleymdum ísótóparannsóknum. Nú bjóðast möguleikar sem enginn hefði látið sig dreyma um þegar ég var að læra,“ segir Hufthammer, nú megi lesa ótrúlegustu upplýsingar af gömlum beinum, svo sem um loftslag og fleiri umhverfisþætti á líftíma viðkomandi dýrs.

Heima í Skodje situr göngugarpurinn Torstein Opskar hins vegar og er stórlega til efs að hann sjái þetta sögulega horn, sem hann fann, nokkurn tímann aftur. „Ég geri mér nú ekki miklar vonir um það, en það er spennandi að það nýtist til rannsókna,“ játar hann.

NRK

Fjordingen (hulið öðrum en áskrifendum)

Bygdebladet (hulið öðrum en áskrifendum)

mbl.is