Síðustu sjö ár þau heitustu frá upphafi mælinga

Gríðarlegt tjón varð í Þýskalandi síðasta sumar vegna flóða.
Gríðarlegt tjón varð í Þýskalandi síðasta sumar vegna flóða. AFP

Síðustu sjö ár hafa verið þau heitustu frá því að mælingar hófust. Munurinn á þeim og fyrri árum er greinilegur að því er fram kemur í skýrslu frá Kópernikus, lofts­lags­stofn­un Evr­ópu­sam­bands­ins.

Í umfjöllun AFP-fréttastofunnar um málið er fjallað um veðuröfga undanfarinna ára; hitabylgju í Bandaríkjunum, mikil flóð í Asíu, Afríku, Bandaríkjunum og Evrópu og mikla gróðurelda í Ástralíu og Síberíu.

Árið 2021 var örlítið hlýrra á jörðinni en árin 2015 og 2018. Frá árinu 2015 hefur verið hlýrra en áður en nákvæmar mælingar hófust um miðja 19. öldina.

Árlegur meðalhiti undanfarinna sjö ára var 1,1 til 1,2 gráðum hlýrri en árin 1850-1900 þrátt fyrir áhrif veðurfyrirbærisins La Nina en því fylgir kuldi.

Í tilkynningu frá Kópernikus kemur fram að síðustu sjö ár, það er árið 2015 og árin sex eft­ir það, eru þau heit­ustu síðan mæl­ing­ar hóf­ust.

„Árið 2021 var enn eitt ár mikils hita en sumarið var það heitasta í Evrópu, miklar hitabylgjur við Miðjaðarhafið svo ekki sé minnst á hitann í Bandaríkjunum,“ sagði Carlo Buontempo, forstjóri Kópernikusarstofnunarinnar.

Rowan Sutton yfirmaður loftslagsrannsókna við Reading-háskóla, segir að taka þurfi hækkandi hita af alvöru.

„Við eigum að líta á atburði eins og hitabylgju í Kanada og flóð í Þýskalandi sem léttan löðrung sem vekur fólks til lífsins vegna alvarleika loftslagsbreytinga,“ sagði Sutton.

mbl.is