Héldu tvö partí kvöldið fyrir útför Filippusar

Boris Johnson í breska þinginu á þriðjudag, þar sem þátttaka …
Boris Johnson í breska þinginu á þriðjudag, þar sem þátttaka hans í 100 manna veisluhöldum í miðju útgöngubanni var rædd. AFP

Breska dagblaðið Telegraph greinir í kvöld frá því að starfsfólk á skrifstofu forsætisráðherrans Downingstræti hafi haldið tvö partí kvöldið fyrir útför Filippusar drottningarmanns, en strangar sóttvarnaaðgerðir voru þá í gildi þar í landi.

Afhjúpun kemur í kjölfar mikillar gagnrýni sem forsætisráðherrann Boris Johnson hefur hlotið eftir að upp komst að hann hefði verið viðstaddur veisluhöld í miðju útgöngubanni.

Föstudagskvöldið 16. apríl í fyrra stóð yfir opinbert sorgartímabil í Bretlandi í kjölfar andláts Filippusar, eiginmanns Elísabetar drottningar, viku áður.

Vegna fjölda kórónuveirusmita í landinu á þeim tíma voru í gildi strangar sóttvarnareglur. Var því útför Filippusar afar óhefðbundin en drottningin sat ein í einkakapellu í Windsor-kastalanum til að kveðja eiginmann sinn til 73 ára.

Fjölmargir hafa kallað eftir því að forsætisráðherrann segi af sér.
Fjölmargir hafa kallað eftir því að forsætisráðherrann segi af sér. AFP

Samkomurnar eiga að hafa staðið yfir langt fram á nótt

Kvöldið áður hafði andrúmsloftið í Downinstræti þó verið allt öðruvísi, þar sem ráðgjafar og embættismenn komu saman eftir vinnu fyrir tvo aðskilda viðburði til þess að kveðja tvo starfsmenn sem voru að hætta störfum.

Annar starfsmaðurinn var James Slack, samskiptastjóri Johnson, og hinn var einn af ljósmyndurum forsætisráðherrans.

Telegraph greinir frá því að sjónarvottar hafi tjáð miðlinum að mikið magn áfengis hafi verið drukkið og dansað hafi verið við tónlist. Samkomurnar eiga að hafa staðið yfir langt fram á nótt.

„Óleyfilegt er að umgangast annað fólk innandyra fyrir utan heimilisfólk þitt eða nánustu búbblu. Hægt er að hittast utandyra, þar á meðal í görðum, í sex manna hópum,“ sagði í þágildandi reglum ríkisstjórnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert