Twitter opnar aftur eftir sjö mánaða bann

Twitter hefur ekki staðið þnígeríubúum til boða síðan í júní …
Twitter hefur ekki staðið þnígeríubúum til boða síðan í júní á síðasta ári. AFP

Nígeríubúar gátu aftur komist á samfélagsmiðilinn Twitter í dag eftir að íbúum landsins var meinaður aðgangur í sjö mánuði í kjölfar þess að tæknirisinn eyddi tísti forseta landsins, Muhammadu Buhari.

Það var í júní og síðan þá hafa mannréttindasamtök bent á versnandi stöðu tjáningafrelsis í Nígeríu, fjölmennasta landi Afríku. 

Samningaviðræður hafa staðið yfir milli forsvarsmanna Twitter og nígerískra stjórnvalda um hvernig megi koma miðlinum upp að nýju í landinu. Meðal annars kom til tals að Twitter opnaðu starfsstöðvar í Nígeríu. 

Mikilvægt fyrir lýðræðið

Þrír fjórðu hlutar þeirra 200 milljón manna sem búa í Nígeríu eru undir 24 ára aldri og því mjög nettengd og sítengd á samfélagsmiðlum. 

Ungmenni hafa notað samfélagsmiðla eins og Twitter til þess að taka þátt í þjóðfélagsumræðu, líkt og víða annarss staðar í heiminum. Myllumerkið #BringBackOurGirls fór um eins og eldur í sinu árið 2014 þegar hryðjuverkasamtökin Boko Haram rændu um 300 skólastúlkum í sveitaþorpi þar í landi. 

Þá spruttu út á Twitter mótmæli sem áður en yfir lauk urðu þau stærstu sem sést hafa í landinu á síðari árum. Reiði fólks beindist gegn löggæslustofnunum og voru þær sakaðar um að mismuna fólki og sýna mikla grimmd. 

mbl.is