Fólk meira aðlaðandi með grímur

Grímuklæddir Spánverjar í biðröð eftir bólusetningu við kórónuveirunni.
Grímuklæddir Spánverjar í biðröð eftir bólusetningu við kórónuveirunni. AFP

Rannsókn hefur leitt í ljós að fólk þykir meira aðlaðandi þegar það er með grímu á andlitinu.

Vísindamönnum við Cardiff-háskóla kom á óvart þegar í ljós kom að bæði karlar og konur voru talin líta betur út með grímu sem huldi neðri helmingi andlitsins.

Þeir komust einnig að því að fólk með ljósbláa skurðgrímu var líklegast til að vera mest aðlaðandi, að því er The Guardian greindi frá.

Dr. Michael Lewis, fræðimaður við sálfræðideild Cardiff-háskóla og andlitssérfræðingur, sagði að rannsóknir hafi sýnt það fyrir faraldurinn að flestar læknagrímur þóttu gera fólk minna aðlaðandi vegna þess að þær voru tengdar við sjúkdóma eða veikindi.

Fólk á gangi í New York.
Fólk á gangi í New York. AFP

„Við vildum rannsaka hvort þetta hafi breyst eftir að grímur urðu allsráðandi og reyna um leið að skilja hvort tegund grímunnar skipti máli,“ sagði Lewis.

„Rannsóknin okkar sýnir að andlit eru talin mest aðlaðandi þegar þau eru hulin með skurðgrímu. Ástæðan fyrir þessu gæti verið sú að við erum vön því að heilbrigðisstarfsmenn noti bláar grímur og núna tengjum við þær við fólk í umönnun og læknastéttinni. Á tímum þegar okkur finnst við vera berskjölduð gæti okkur fundist grímur vera  hughreystandi og þess vegna erum við jákvæðari gagnvart notkun þeirra,“ bætti Lewis við.  

mbl.is