Játaði hatursglæp 34 árum síðar

Steve Johnson var myrtur í grennd við Sydney fyrir 34 …
Steve Johnson var myrtur í grennd við Sydney fyrir 34 árum. AFP

Ástralskur karlmaður hefur játað að hafa myrt Bandaríkjamanninn Scott Johnson árið 1988 í grennd við borgina Sydney. Johnson sem var 27 ára gamall var samkynhneigður en um hatursglæp var að ræða.

Líkamsleifar Johnson fundust fyrir neðan klettabelti úti fyrir Sydney og taldi lögregla að hann hefði framið sjálfsvíg. Fjölskylda hans trúði því þó aldrei, að því er fram kemur í umfjöllun BBC um málið.

Scott White var handtekinn og ákærður vegna málsins fyrir tveimur árum og játaði fyrr í vikunni.

Lögfræðingar hans reyndu að fá játninguna til baka og sögðu að White, sem er fimmtugur, glímdi við andlega kvilla. Þeirri kröfu var hafnað.

„Mér fannst það fáránleg tilhugsun að Scott hefði farið eitthvert og hoppað fram af kletti,“ sagði Steve, bróðir Scott Johnson, í viðtali árið 2018.

Hann reyndi árum saman að fá lögreglu til að rannsaka andlát bróður síns frekar, án árangurs. Það var ekki fyrr en hann réði einkaspæjara sem komst að því að menn höfðu ráðist að samkynhneigðum mönnum á svæðinu við klettana sem hjólin fóru að snúast.

Talið er að gengi sem níddust á samkynhneigðum hafi myrt allt að 80 samkynhneigða karlmenn á Sydney-svæðinu á níunda áratug síðustu aldar. Mörgum þeirra var hrint fram af klettum.

Eftir að lögregla fór aftur að rannsaka málið fyrir fjórum árum eftir að réttarmeinafræðingur komst að þeirri niðurstöðu að Johnson hafði verið myrtur var Scott White handtekinn og ákærður fyrir tveimur árum.

Bróðirinn, Steve, er ánægður að málið leyst en telur að lögregla hafi sýnt andláti Scott svo lítinn áhuga vegna kynhneigðar hans.

„Bróðir minn var stoltur samkynhneigður maður og besti vinur minn,“ sagði Steve.

Umfjöllun BBC.

mbl.is