Norðmenn hefja bólusetningu barna

Um 90 prósent fullorðinna íbúa í Noregi hafa fengið í …
Um 90 prósent fullorðinna íbúa í Noregi hafa fengið í hið minnsta tvo skammta af bóluefni við Covid-19. AFP

Norsk stjórnvöld greindu frá því í dag að þau muni bjóða börnum á aldrinum fimm til ellefu ára upp á bólusetningu við Covid-19. Hætt var við að gefa út opinber tilmæli um bólusetningu barna.

„Börn veikjast sjaldan alvarlega af Covid og þekking um sjaldgæfar aukaverkanir og langtíma afleiðingar er enn takmörkuð í bili,“ sagði Ingvild Kjerkol heilbrigðisráðherra í yfirlýsingu.

„Ávinningur af bólusetningu fyrir flest börn er takmarkaður og (norska) heilbrigðisráðuneytið gefur engar opinberlegar ráðleggingar um að öll börn á aldrinum 5 til 11 ættu að þiggja bólusetningu en það getur skipt máli fyrir ákveðna hópa,“ bætti hún við.

Afléttu takmörkunum

Var bólusetningum sérstaklega beint að þeim börnum sem þjást af langvinnum sjúkdómum, fjölskyldum þar sem börnin eru í beinni snertingu við fólk í hættu eða börn sem munu ferðast til landa þar sem smittíðni er mikil en aðgangur að heilbrigðisþjónustu lítill.

Um 90 prósent fullorðinna íbúa í Noregi hafa fengið í hið minnsta tvo skammta af bóluefni við Covid-19. Þrátt fyrir aukna smittíðni undanfarnar vikur, sem hafa þó ekki leitt til fjölgunar innlagna á sjúkrahús, var aflétt einhverjum af takmörkunum þar í landi.

Þá var banni við sölu áfengis á börum og veitingastöðum aflétt og mega þeir staðir nú hafa opið til klukkan ellefu á kvöldin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert