Óbólusettir verða sektaðir í Quebec

Í Quebec-fylki í Kanada munu óbólusettir bráðlega verða sektaðir.
Í Quebec-fylki í Kanada munu óbólusettir bráðlega verða sektaðir. AFP

Aðeins klukkustundum eftir að tilkynnt var í Quebec-fylki í Kanada á þriðjudag að óbólusettir íbúar fylkisins yrðu sektaðir hefur verulegur fjöldi fólks bókað tíma í fyrstu bólusetningu, að því er kemur fram í umfjöllun CNN.

„Þetta er hvetjandi!“ tísti heilbrigðisráðherra Quebec, Christian Dube, og benti á að þegar tilkynningin var birt á þriðjudaginn hefðu 7.000 manns skráð sig í bólusetningu og höfðu ekki fleiri skráð sig í fjölda daga.

Sektin fyrir óbólusetta mun ekki koma til með að eiga við um þá sem eru undanþegnir bólusetningu vegna læknisfræðilegra ástæðna. Þá hafa engar upplýsingar verið gefnar varðandi upphæð sektarinnar en þó hafa embættismenn sagt að upphæðin verði veruleg.

Ríkisstjórnin í Quebec sagði að þrátt fyrir að 90% þeirra sem geta þegið bólusetningu í Quebec séu bólusettir með að minnsta kosti einum skammti séu þeir óbólusettu enn þá byrði á heilbrigðiskerfi fylkisins.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, neitaði í gær á blaðamannafundi að tjá sig um þessa stefnu Quebec og sagðist þurfa að kynna sér hana betur og undirstrikaði að í Kanada væru strangar kröfur um bólusetningu fyrir flug- og lestarfarþega og alríkisstarfsmenn.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, á blaðamannafundi í gær.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, á blaðamannafundi í gær. AFP

Aðeins bólusettir geta keypt áfengi

Í síðustu viku tilkynnti Quebec, þar sem nærri fjórðungur Kanadabúa býr, að íbúar þyrftu að vera bólusettir til að kaupa áfengi eða kannabis. Framvísa þarf sönnun um bólusetningu til að borða á veitingastöðum, fara í ræktina eða mæta á íþróttaviðburði.

Kanadíski heilbrigðisráðherrann Jean-Yves Duclos sagði á blaðamannafundi í Ottawa í gær að búið væri að sýna fram á það að bólusetningarskyldur virkuðu og benti á að 99% opinberra starfsmanna væru að fullu bólusettir eða bráðlega að fullu bólusettir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert