Sakaður um að hafa ljóstrað upp ríkisleyndarmálum

Fyrrverandi varnarmálaráðherra Danmerkur, Claus Hjort Frederiksen.
Fyrrverandi varnarmálaráðherra Danmerkur, Claus Hjort Frederiksen. AFP

Fyrrverandi varnarmálaráðherra Danmerkur, Claus Hjort Frederiksen, greindi frá því í dag að hann hefði verið ákærður af dönsku lögreglunni fyrir að hafa brotið trúnað með því að greina fjölmiðlum frá upplýsingum sem varða við þjóðaröryggi er hann gegndi ráðherraembætti.

 Danska ríkisútvarpið greinir frá. 

„Ég get staðfest að ég er ákærður samkvæmt kafla 109 í hegningarlögum fyrir að hafa brotið mörk tjáningarfrelsis míns,“ sagði Frederiksen í stuttri fréttatilkynningu sem flokkurinn Venstre birti í morgun.

 Setið á bak við lás og slá í rúm­an mánuð

Árið 2020 staðfesti Frederiksen í viðtali við Weekendavisen og fleiri fjölmiðla að leyniþjónusta danska hersins, FE, hafi unnið saman með bandarísku þjóðaröryggisstofnuninni, NSA, að njósnum í gegnum ljósleiðara.

Á mánudaginn kom í ljós að fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustu danska hersins, FE, var í haldi vegna sömu ákæru. Lars Findsen hef­ur setið á bak við lás og slá í rúm­an mánuð eft­ir að hafa verið sakaður um að hafa lekið rík­is­leynd­ar­mál­um.

Dansk­ir fjöl­miðlar hafa greint frá því að Findsen hafi verið hand­tek­inn og ákærður í mál­inu í lok síðasta árs. Findsen seg­ir að ásak­an­irn­ar séu „sturlaðar“.

Í yfirlýsingunni segir Frederiksen að hann hafi tjáð sig um pólitískt mál en fullyrti við fjölmiðla að hann myndi aldrei gera neitt til að skaða Dani. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert