Segja Rússa leggja á ráðin um skemmdarverk

AFP

Bandarísk stjórnvöld halda því fram að rússnesk stjórnvöld séu búin að senda skemmdarverkamenn til Úkraníu, sem sé ætlað að búa til tylliástæðu til að réttlæta innrás Rússa. Hörð netárás var gerð á vefsíður úkraínskra stjórnvalda fyrr í dag og hafa upptök hennar verið bendluð við Moskvu.

„Við höfum upplýsingar sem benda til þess að Rússar hafi þegar skipað hóp skemmdarverkamanna til að framkvæma sýndaraðgerð (e. false-flag operation) í austurhluta Úkraínu,“ sagði Jen Psaki, talskona Hvíta hússins á blaðamannafundi í dag. Aðgerðin myndi þá beinast að rússneskumælandi aðskilnaðarsinnum í austurhluta Úkraínu, til þess að veita Rússum tylliástæðu til þess að koma þeim til aðstoðar. 

Jen Psaki, talskona Hvíta hússins á blaðamannafundi í dag.
Jen Psaki, talskona Hvíta hússins á blaðamannafundi í dag. AFP

Bandaríska leyniþjónustan telur að Rússar gætu hafið aðgerðirnar nokkrum vikum fyrir innrás í landið, en áætlað er að hún gæti hafist einhvern tímann á tímabilinu frá miðjum janúar og fram í miðjan febrúar. 

Rússar hafa neitað því að þeir hafi nokkur áform um að ráðast inn í Úkraínu og vísuðu þeir yfirlýsingum Bandaríkjanna fljótt á bug.

mbl.is