Úðuðu heilögu vatni yfir pílagrímsgöngu

Milljónir manna flykktust á Magh Mela hátíðina í Indlandi í …
Milljónir manna flykktust á Magh Mela hátíðina í Indlandi í dag, þvert á sóttvarnarreglur þar í landi. AFP

Fjöldi pílagríma safnaðist saman á trúarhátíð í Indlandi í dag, þrátt fyrir aukinn fjölda covid-smita þar í landi. Notast var við dróna sem úðuðu heilögu vatni úr Ganges-fljótinu yfir gönguna til þess að reyna draga úr mannmergðinni.

Um þrjár milljón manns flykktust á hátíðina

Pílagrímsgöngunni hefur verið líkt við aðra trúarhátíð sem haldin var í Indlandi í fyrra sem þarlend stjórnvöld neituðu að blása af, þrátt fyrir að hún gæti valdið hópsmiti, að því er fréttastofa AFP greinir frá.

Búist var við því að um þrjár milljónir manna myndu sækja hátíðina, sem haldin var á eyjunni Sagar, þar sem Ganges-fljótið mætir Bengalflóa.

„Það var haf af fólki mætt hérna í morgun,“ sagði indverski stjórnmálamaðurinn Bankim Chandra Hazra, í samtali við AFP.

„Heilögu vatni úr Ganges-fljótinu var úðað úr drónum á pílagrímana, til að reyna draga úr mannmergðinni. Fólkið í göngunni var þó staðráðið í að dýfa sér ofan í fljótið. Pílagrímarnir, sem báru fæstir grímur, voru mun fleiri en öryggisverðir göngunnar,“ bætti hann við.

Ganges er eitt helgasta fljót hindúa, sem trúa því að …
Ganges er eitt helgasta fljót hindúa, sem trúa því að þeir geti hreinsað sig af syndum sínum með því að baða sig í fljótinu. AFP

Flestir voru tilbúnir að brjóta sóttvarnareglur

Ómögulegt var að viðhafa sóttvarnarreglur á viðburðinum, að sögn lögregluþjóns sem var á svæðinu.

„Flestir pílagrímarnir virðast tilbúnir til að brjóta reglurnar. Þeir trúa því að Guð muni bjarga þeim og að baðið í Ganges-fljótinu muni hreinsa þá af öllum syndum sínum og jafnvel lækna þá sem eru sýktir af kórónuveirunni,“ sagði hann.

Amitava Nandy, veirufræðingur frá Kolkata-háskólanum, sagði stjórnvöld hvorki hafa aðstöðu né mannafla til þess að hraðprófa alla þá sem mæta á hátíðina né tryggja fjarlægðartakmarkanir.

„Reyni lögreglan að tryggja fjarlægðartakmörk gæti troðningur myndast á árbakkanum,“ sagði hún í samtali við fréttastofu AFP.

Sarbananda Mishra, 56 ára gamall skólakennari frá Bihar, sagði við AFP: „Með því að trúa á Guð mun fólk sigrast á óttanum við faraldurinn. Baðið í Ganges-fljótinu mun hreinsa það af syndum þeirra og frelsa það. Dauðinn er hinn endanlegi sannleikur. Hvers vegna að lifa þá í ótta?“

mbl.is