Hrinti konu fyrir lest

Í kjölfar atviksins urðu truflanir á neðanjarðarlestarkerfum í Brussel í …
Í kjölfar atviksins urðu truflanir á neðanjarðarlestarkerfum í Brussel í gærkvöldi. Skjáskot/Twitter

Ungur maður hrinti konu viljandi út á neðanjarðarlestarteina á Rogier, neðanjarðarlestarstöð í Brussel, í gærkvöldi. Lestarstjórinn sýndi mikið snarræði þar sem hann náði að stöðva lestina í tæka tíð og er konan því óhult.

Á upptöku úr öryggismyndavél á lestarstöðinni sést maður horfa í átt að lest sem kemur aðvífandi, á síðustu stundu flýtir hann sér upp að konu og ýtir henni fram af stöðvarpallinum á sporin fyrir framan lestina.

Lestarstjórinn notaði neyðarhemil til að stöðva lestina rétt fyrir framan konuna sem lá á teinunum. Er lestin stöðvaðist flýtti svo fólkið á stöðvarpallinum sér að koma henni til aðstoðar.

Maðurinn handtekinn

Að sögn belgíska miðilsins The Brussels Times hljóp maðurinn af vettvangi eftir að hann hrinti konunni en yfirvöld í Belgíu staðfestu í morgun að maðurinn hefði verið handtekinn skömmu síðar og er málið nú í rannsókn.

Lögregla og sjúkrabílar voru kölluð á vettvang í kjölfar atviksins. Bæði konan og lestarstjórinn voru flutt með sjúkrabíl á sjúkrahús til aðhlynningar.

Í kjölfar atviksins urðu truflanir á neðanjarðarlestarkerfum í Brussel í gærkvöldi.

Myndskeið af atvikinu úr öryggismyndavélum má sjá hér að neðan.

mbl.is