„Kraftaverkabarn“ fæddist í háloftunum

Flugvél Qatar Airways.
Flugvél Qatar Airways. AFP

Kanadískur læknir tók á móti „kraftaverkabarni“ í næturflugi til Úganda.

Dr. Aisha Khatib, prófessor við Toronto-háskóla, hafði verið í um klukkutíma í háloftunum með Qatar Airways frá Doha, höfuðborg Katar, til Entebbe í Úganda þegar kallið kom.

Farandverkakona frá Úganda á leið frá heim til sín frá Sádi-Arabíu var um það bil að fara að fæða sitt fyrsta barn eftir að hafa verið komin 35 vikur á leið, að því er BBC greindi frá.  

Barnið kom heilbrigt í heiminn og var nefnt Miracle Aisha í höfuðið á lækninum.

„Ég sá fólk safnast saman í kringum sjúkling,“ sagði Dr. Khatib við BBC News. Þá hélt hún að eitthvað alvarlegt hefði gerst á borð við hjartaáfall.

„Þegar ég kom nær sá ég þessa konu liggjandi í sætinu með höfuðið í átt að ganginum og fæturna í átt að glugganum. Og barnið var að koma út!“

Tveir aðrir farþegar aðstoðuðu lækninn við að taka á móti barninu, eða hjúkrunarkona og barnalæknir.

Eftir að hún hafði tekið á móti barninu lét hún það í hendur barnalæknisins til nánari skoðunar. Í kjölfarið klöppuðu farþegar vélarinnar ákaft fyrir stúlkubarninu fallega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert