Afsögn Johnsons sé allri þjóðinni í hag

Leiðtogi verkamannaflokksins í Bretlandi, Sir Keir Starmer, sagði í dag að augljóst væri að Boris Johnson, forsætisráðherra, hefði brotið lög með því að hafa haldið veislur í Downingstæti er útgöngubann var í gildi þar í landi síðasta vor.

Sue Gary, sér­stakur sak­sókn­ari, vinnur nú að skýrslu sem ætti að koma út bráðlega um sótt­varna­brot­in í Down­ingstræti. Segir Starmer að hann þurfi ekki að bíða eftir niðurstöðum skýrslunnar til þess að vita að Johnson hafi brotið sóttvarnarlög.

„Staðreyndirnar tala sínu máli og landið hefur gert upp hug sinn,“ sagði hann og bætti við að það væri „augljóst hvað gerðist“.

Starmer sagði augljóst að það væri stjórnarandstöðunni í hag ef Johnson segði af sér en sagði að nú væri afsögn hans allri þjóðinni í hag og bætti við að forsætisráðherrann væri búinn að missa öll siðferðisleg völd.

Baðst afsökunar á því að hafa tekið þátt í veisluhöldunum

John­son viður­kenndi á miðvikudag í síðustu viku, í til­svör­um sín­um gagn­vart þing­inu, að hann hefði verið viðstadd­ur um hundrað manna veislu í Down­ingstræti 10 þegar út­göngu­bann var í gildi fyr­ir al­menn­ing í land­inu.

John­son baðst í leiðinni af­sök­un­ar á að hafa tekið þátt í veislu­höld­un­um, sem fóru fram í garði Down­ingstræt­is, og sagðist skilja reiði al­menn­ings yfir því. Síðan þá hafa frásagnir af fleiri veisluhöldum Downingstræti komið upp á yfirborðið.

Eins og breska blaðið Tel­egraph greindi frá fyrst miðla voru hald­in tvö teiti í Down­ingstræti 10 16. apríl síðastliðinn. Útför Fillipus­ar prins var hald­in dag­inn eft­ir. og sat Elísa­bet Bret­lands­drottn­ing ein í út­för eig­in­manns síns vegna sam­komutak­mark­ana. Gleðskap­ur­inn í for­sæt­is­ráðuneyt­inu ent­ist fram á rauðamorg­un.

Á meðal hátt­settra þing­manna í Íhalds­flokkn­um sem kallað hafa eft­ir af­sögn John­sons eru Douglas Ross, leiðtogi íhalds­manna í Skotlandi, Wiliam Wragg, Carol­ine Nokes og Roger Gale en alls hafa sex þingmenn nú kallað eftir afsögn Johnsons.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert