Unglingar handteknir vegna árásar á sýnagógu

Frá aðgerðum lögreglu við sýnagóguna.
Frá aðgerðum lögreglu við sýnagóguna. AFP

Tveir unglingar voru handteknir á Englandi í gærkvöldi vegna rannsóknar á gíslatöku í sýnagógu í Texas í Bandaríkjunum á laugardag. 

Hinn breski Malis Faisal Akram var skotinn til bana af lögreglu á vettvangi. Hann kom til Bandaríkjanna í gegnum JFK-flugvöllinn í New York fyrir um tveimur vikum. Er útlit fyrir að hann hafi keypt sér vopn eftir að hann kom til Bandaríkjanna. Engin sprengiefni fundust á honum og átti hann enga afbrotasögu. 

Árásin á sýnagóguna, Congregation Beth Israel í Dallas, hófst klukkan 11 að staðartíma. Lögreglan var kölluð út stuttu síðar. 

Vildi að taugavísindakonu yrði sleppt

Akram komst, vopnaður byssu, inn í sýnagóguna undir fölsku flaggi en hann sagðist vera heimilislaus. Akram tók fjóra gísla, þeirra á meðal var rabbíni sýnagógunnar. Akram hélt gíslunum í rúmar tíu klukkustundir en enginn þeirra særðist í árás Akrams.

Með athæfi sínu ætlaði Akram að krefjast þess að Aafia Siddiqui, pakistanskri taugavísindakonu sem afplánar nú 86 ára fangelsisdóm í Texas, yrði sleppt. Fangelsið sem Siddiqui situr í er í um 32 kílómetra fjarlægð frá sýnagógunni sem Akram réðst á.

Lögreglan í Manchester greindi frá handtöku unglinganna í gær og sagði að hún hefði verið framkvæmd „sem hluti af yfirstandandi rannsókn á árásinni“. Þá eru unglingarnir nú yfirheyrðir.

Upplýsingar um kyn þeirra og aldur hafa ekki verið gefnar upp. Unglingarnir voru handteknir í suðurhluta Manchester. Lögreglan þar á í samstarfi við bandarísk lögregluyfirvöld vegna málsins. 

Bróðirinn fordæmdi árásina

Gulbar, bróðir Akrams, tilkynnti opinberlega um dauða hans í yfirlýsingu á Facebook-síðu múslimasamfélagsins í Blackburn. Bróðirinn bað þolendur árásarinnar afsökunar og sagði að Akram hefði þjáðst af andlegum veikindum. 

„Það ætti alltaf að for­dæma ofbeldi gegn fólki, sama hvort það beinist gegn gyðingum, kristnum eða múslimum,“ sagði Gulbar. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert