Faraldrinum hvergi nærri lokið

Tedros Adhanom Ghebreyesus.
Tedros Adhanom Ghebreyesus. AFP

Heimsfaraldri kórónuveirunnar er hvergi nærri lokið að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Stofnunin varar við því sjónarmiði að Ómíkron-afbrigði veirunnar sé hættulaust. 

Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri stofnunarinnar, sagði við blaðamenn í Genf í dag að Ómíkron-afbrigði veirunnar dreifist á ógnarhraða og varasamt sé að gera lítið úr afbrigðinu líkt og nokkuð hefur borið á. 

Umræðan um Ómíkron hefur meðal annars snúist um þá spurningu hvort Covid-19 hafi þróast úr heimsfaraldri yfir í landlægan sjúkdóm sem hægt sé að lifa með líkt og inflúensa er. 

„Mikil fjölgun smita, sama hversu skæð ákveðin afbrigði eru, leiðir óhjákvæmilega til aukinna innlagna á sjúkrahús og dauðsfalla,“ sagði Michael Ryan, yfirmaður neyðarmála hjá stofnuninni, á blaðamannafundinum í dag. 

„Ómíkron gæti verið minna alvarlegt, en það sjónarmið að um mildan sjúkdóm sé að ræða er misvísandi,“ sagði Ryan. 

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eru um 45 þúsund dauðsföll af völdum Covid-19 tilkynnt vikulega á heimsvísu.  

mbl.is