Heimila að höfuðborgin verði færð til Borneó

Höfuðborgarsvæðið í kringum Jakarta er ægistórt. Þar búa um 30 …
Höfuðborgarsvæðið í kringum Jakarta er ægistórt. Þar búa um 30 milljónir manna. AFP

Indónesíska þingið samþykkti í dag frumvarp um að færa höfuðborg landsins frá Jakarta og til eyjunnar Borneó þar sem borgin Nusantara liggur. Nusantara yrði þannig ný höfuðborg þessa fjórða fjölmennasta ríkis heims. 

Hugmyndir um tilfærsluna komu fyrst fram á vordögum 2019 þegar Joko Widodo, forseti Indónesíu, lagði hana til með vísan í að Jakarta væri að sökkva. Hækkandi sjávarmál hefur vissulega orðið vandamál í Jakarta, þar sem um 30 milljónir búa. Vísindamenn segja að þriðjungur alls höfuðborgarsvæðisins geti farið undir sjó fyrir árið 2050. 

Nýja höfuðborgin mun þekja 559 ferkílómetra svæði í austanverðu Kalimantan-héraði á eyjunni Borneó, sem Indónesía á hlutdeild að ásamt ríkjunum Brúnei og Malasíu.

Snjöll borg

Fyrstu áætlanir um nýju borginna gera ráð fyrir að með tíð og tíma muni þar rísa umhverfisvæn og snjöll borg, en flestar áætlanir bíða enn samþykkis. Framkvæmdir áttu að hefjast árið 2020 en þeim var slegið á frest vegna faraldursins. 

Umhverfissinnar hafa mótmælt tilfærslunni og segja að vistkerfi Borneó sé þegar í nægri hættu vegna námugreftra og pálmaolíuvinnslu. Dýr í útrýmingarhættu á eyjunni megi ekki við auknum umsvifum mannfólks, hvað þá heilli borg. 

Í ræðu sem hann hélt í háskóla í Indónesíu sagði Widodo, forseti landsins, að borgin yrði þannig að „fólk væri sífellt í nálægð við alla áfangastaði og gæti hjólað eða labbað hvert sem þurfa þykir af því það verður enginn útblástur“.

„Þessi borg mun ekki aðeins hýsa opinberar stofnanir og skrifstofur þeirra, við viljum byggja snjalla stórborg sem yrði sem segull fyrir hæfileika heimsins og suðupottur nýsköpunar,“ sagði hann einnig. 

Nusantara, sem þýðir eyjaklasi á máli innfæddra, var valið úr 80 hugmyndum að nýjum nöfnum af því það þótti einkennandi og auðvelt væri að leggja það á minnið, að sögn Suharso Monoarfa, þróunarmálaráðherra landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert