Á hálum ís vegna vafasamra ummæla

Golden State Warriors spila í NBA-deildinni í körfubolta.
Golden State Warriors spila í NBA-deildinni í körfubolta. AFP

Bandaríski fjárfestirinn og milljarðamæringurinn Chamath Palihapitiya vakti nýverið reiði með ummælum sínum um að honum sjálfum og flestum Bandaríkjamönnum stæði á sama um Úígúra í Kína. 

Úígúrar mynda minnihlutahóp múslima í Kína sem hefur mátt þola verulegt misræði af hálfu þarlendra stjórnvalda. Palihapitiya stýrði þar umræðu um aðgerðir Joe Biden Bandaríkjaforseta til þess að koma í veg fyrir árásir kínverskra stjórnvalda í garð Úígúra, eitthvað sem fjárfestirinn segir að hafi gengið skammt. 

Palihapitiya tjáði sig á twittersíðu sinni um ummælin, sem hann lét falla í hlaðvarpsþætti sem hann stjórnar, en þar lauk málinu ekki eins og greint er frá á BBC.

Engin afsökunarbeiðni

Rayhan Asat, virtur mannréttindalögfræðingur, sagði sína skoðun á tísti Palihapitiya og benti á að þar færi ekki afsökunarbeiðni. 

„Þegar fólk biðst afsökunar á það skilið annað tækifæri. Ég sé ekki að þetta geti talist afsökunarbeiðni þegar Palihapitiya getur ekki einu sinni beint athygli að því hvernig ummæli hans voru særandi í garð Úígúra,“ sagði hún á eigin twittersíðu. 

Palihapitiya er einn eigandi NBA-liðsins Golden State Warriors og hefur liðið sent frá sér yfirlýsingu þar sem tekið er fyrir skoðanir eigandans og þær sagðar fjarri því að endurspegla það sem liðið stendur fyrir. 

Enes Kanter, liðsmaður Boston Celtics í NBA-deildinni, er ötull baráttumaður gegn mannréttindabrotum og hann lagði orð í belg á sinni twittersíðu. Þar sagði hann að þjóðarmorð af því tagi sem kínversk stjórnvöld fremja á Úígúrum aldrei í lagi. Menn eins og Palihapitiya leyfðu slíku þó að viðgangast. mbl.is