Á tíræðisaldri og öðlaðist heimsfrægð á TikTok

Giddes Chalamanda er býsna hress þrátt fyrir árin 92 sem …
Giddes Chalamanda er býsna hress þrátt fyrir árin 92 sem hann hefur lifað. AFP

Giddes Chalamanda er á tíræðisaldri og hefur ekki hugmynd um það hvernig TikTok virkar. Hann á ekki einu sinni snjallsíma til þess að nota samfélagsmiðilinn. Samt hefur hann skotist upp á stjörnuheim TikTok með lagi sínu „Linny Hoo“ sem hefur fengið fleiri en 80 milljónir spilana á TikTok. Lagið hefur jafnframt verið innblástur fyrir aðra víða um heim sem hafa tekið það og hljóðblandað upp á nýtt. 

„Fólk kemur og sýnir mér myndböndin á símunum sínum en ég veit ekkert hvernig þetta virkar,“ sagði Chalamanda við AFP. Blaðamaður hitti hann á heimili hans sem er í um 20 kílómetra fjarlægð frá Blantyre, höfuðborg Malaví. 

„En mér finnst skemmtilegt að fólk sé að njóta sín og að mínir hæfileikar fái rétta athygli,“ sagði Chalamanda.

Heyrði af heimsfrægðinni frá börnum sínum

Chalamanda, sem bæði syngur og spilar á gítar, hefur verið mikilvægur þátttakandi í malavísku tónlistarsenunni í um sjö áratugi. 

Lagið sem unga kynslóðin á TikTok er nú með á heilanum tók hann upp árið 2000 og hét það þá einungis „Linny“. Lagið er óður til einnar dóttur hans. 

Alþjóðlega frægð öðlaðist Chalamanda tveimur áratugum síðar, eftir að Patience Namadingo, ungur gospellistamaður, tók lagið upp með Chalamanda að nýju, þá í reggí-búningi. Fékk lagið þá lengra nafn, „Linny Hoo“.

Giddes Chalamanda ásamt eiginkonusinni Margalita Alfred.
Giddes Chalamanda ásamt eiginkonusinni Margalita Alfred. AFP

Chalamanda heyrði svo af heimsfrægð sinni frá börnum sínum og vinum þeirra. Síðan þá hafa þeir Namadingo tekið upp nýjar hljóðblöndur af nokkrum öðrum vel þekktum lögum Chalamanda.

Stjúpsonur Linny, dóttur Chalamanda, sagði í samtali við AFP að hann væri stoltur af afa sínum og langlífi hans.

„Það er gott að hann hafi lifað nægilega lengi til þess að upplifa þetta,“ sagði stjúpsonurinn Austin. Hann ætlar sér sjálfur að starfa í tónlist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert