Segir saknæmt athæfi Trump-fjölskyldu sannað

Donald Trump síðastliðinn laugardag.
Donald Trump síðastliðinn laugardag. AFP

Letitia James, dómsmálaráðherra New York-ríkis, segir að rannsókn sín á viðskiptum Trump-fjölskyldunnar hafi leitt í ljós sannanir um saknæmt athæfi.

Meðal annars segir James í dómsskjölum að brögð hafi verið í tafli varðandi mat á virði ýmissa eigna  og að þetta virði hafi verið ranglega túlkað í hagnaðarskyni. Málið snýst um Trump Organization sem er í eigu Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.

James vonast til að geta yfirheyrt Trump og tvö elstu börnin hans, Donald Trump yngri og Ivönku Trump í tengslum við rannsóknina.

„Þangað til í janúar 2017 var frú Trump helsti tengiliður Trump Organization við helsta lánadrottinn sinn, Deutche Bank. Í tengslum við þetta starf sá Trump til þess að misvísandi fjárhagsyfirlýsingar voru sendar til Deutche Bank og ríkisins,“ sagði í dómsskjölunum.

Trump-turninn í New York-borg.
Trump-turninn í New York-borg. AFP

Fram kom að síðan 2017 hafi Donald Trump yngri haft umsjón með fjölda fjárhagsyfirlýsinga með misvísandi mati á virði eigna.

Í dómsskjölunum segir að eitt brotanna snúist um að þakíbúð Donalds Trumps í Trump-turninum á Manhattan í New York hafi verið sögð þrefalt stærri en hún væri í raun og veru, sem gerði það að verkum að hún var metin 200 milljónum dala dýrari, eða um 25 milljörðum króna.

Trump-fjölskyldan segja rannsóknina vera pólitíska og hefur hvatt dómstólinn til að vísa málinu frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert