Umdeildasti skákskýrandi Noregs

Val TV 2 á skákskýranda og -álitsgjafa í umfjöllun um …
Val TV 2 á skákskýranda og -álitsgjafa í umfjöllun um hollenska Tata Steel-skákmótið hefur vakið mikinn úlfaþyt í Noregi og ýmsir tekið til máls með eða á móti David Toska frá Bergen, landsþekktum manni eftir atburði vorsins 2004. Skjáskot/TV 2

Innheimtuþjónustan Intrum í Noregi hefur sagt upp styrktarsamningi sínum við svonefnt skákstúdíó sjónvarpsstöðvarinnar TV 2, íþróttafréttamenn munnhöggvast í fjölmiðlum landsins, lögreglustjórinn í vesturlandsumdæmi lögreglunnar hefur tjáð sjónvarpsstöðinni vonbrigði sín og fyrrverandi réttargæslulögmaður hóps starfsmanna öryggisfyrirtækisins Norsk Kontantservice AS við Dómkirkjutorgið í Stavanger hefur lýst vanþóknun sinni á ákvörðun stjórnenda skákstúdíósins sem ætlað er að fjalla um Tata Steel-skákmótið í Hollandi þar sem Magnus Carlsen situr að tafli.

Úlfaþytur þessi snýst hvorki um hrókeringar, drottningarbragð, skák né mát, heldur þá ákvörðun þáttastjórnenda að bjóða Björgvinjarbúanum David Toska í þáttinn sem skákskýranda og álitsgjafa meðan á Tata Steel stendur.

Svartur á leik

Toska þessi er sjálfur lunkinn við manntaflið, enda hefur hann haft rúman tíma til að íhuga næsta leik í kjölfar 18 ára fangelsisdóms, af hverjum hann sat 13, í kjölfar þess er hann skipulagði og framdi við ellefta mann stærsta bankarán í sögu Noregs, NOKAS-ránið í miðbæ Stavanger að morgni mánudagsins 5. apríl 2004, þaðan sem ræningjarnir óku á brott með 57,4 milljónir norskra króna sem aldrei hafa fundist auk þess að skjóta Arne Sigve Klungland lögregluvarðstjóra til bana, en mbl.is rifjaði NOKAS-ránið ítarlega upp, undirbúning þess og eftirmál þegar 15 ár voru liðin frá því árið 2019.

„Aðkoma dæmds afbrotamanns, David Toska, tengir dagskrárliðinn við alvarlega atburði sem enn í dag vekja mörgum slæmar minningar. Við skiljum að skoðanirnar eru ólíkar á að Toska sé settur í slíkt hlutverk, en tengingarnar, sem það hefur í för með sér, gera það að verkum að við kjósum að setja nafn Intrum ekki á þessa skákþætti,“ skrifar Bunny Nooryani, markaðs- og samskiptastjóri Intrum, í SMS-skeyti til Dagbladet í kjölfar fyrirspurnar þess.

„Kjósi styrktaraðili að draga sig í hlé vegna tveggja heimsókna Toska í þáttinn munum við skoða málið,“ svarar Vegard Jansen Hagen, íþróttaritstjóri TV 2, spurningum Dagbladet, einnig í SMS-skeyti, en játar í næsta skeyti að sú skoðun snúi reyndar ekki að því að hætta við Toska.

„David Toska er þekktur fyrir eitt einasta mál og það er að hann var höfuðpaurinn í NOKAS-ráninu,“ skrifar Leif Welhaven, íþróttaálitsgjafi dagblaðsins VG, í aðsendri grein í blaðinu og kallar boð TV 2 til Toska „skelfilegan leik“ í merkingunni leikur á skákborði.

„Stóra spurningin hér er hvers vegna David Toska er valinn. Sé svarið við þeirri spurningu tengt fortíð hans en ekki skákfærni er ég þeirrar skoðunar að TV 2 færi mörk þess hvað teljist forsvaranlegt á vettvangi afþreyingar,“ skrifar Welhaven.

Launaður stökkpallur brotamanns

Vegard Jansen Hagen íþróttaritstjóri tekur til máls á ný í samtali við norska ríkisútvarpið NRK: „Hann hefur sögu að segja af því hvað skákin var honum bak við lás og slá og eftir að hann losnaði út,“ segir ritstjórinn, vel sé raunhæft að bjóða bankaræningjanum í þáttinn.

Þessu kveðst Welhaven álitsgjafi fullkomlega ósammála. „Eitt er að öðlast annað tækifæri í lífinu, en nýtist það til að skjóta öðrum ref fyrir rass, nánast sem stökkpallur í launuðu verkefni, sprottinn af alvarlegu afbroti sem þú hefur framið, er ég þeirrar skoðunar að við séum komin fulllangt í betrunarhugleiðingunum,“ segir hann við NRK.

Hagen er ekki af baki dottinn og segir skákina eina farveg Toska til að gefa samfélaginu eitthvað jákvætt til baka eftir mánudagsmorguninn vorið 2004 sem fæstir íbúar Stavanger gleyma meðan þeir lifa.

Toska eða TikTok-frægðarmenni

Einn fjölmargra enn sem opna sig um mál TV 2 og Toska er leikarinn og skákáhugamaðurinn Johannes Blåsternes, einnig í aðsendri grein í VG. Kveðst leikarinn ávallt minnugur sögunnar af því þegar jafnaldrarnir David Toska og Abid Raja, menntamálaráðherra í ríkisstjórn Ernu Solberg, sátu saman í skákliði í grunnskóla, frásögn sem birtist í bókinni Skákina eða lífið eftir Atle Grønn, skákmann og prófessor í rússnesku við Háskólann í Ósló, sem reyndar ræddi eitt sinn við mbl.is um Magnus Carlsen.

„Tveir menn sem fetuðu mjög ólíkar slóðir í lífinu, en deildu þó gleðinni af þessu fallega borðspili,“ skrifar Blåsternes og segir frá því hvernig hann hafi fyllst streitu fyrir hönd Toska á meðan hann beið þess að hann tæki til máls í skákstúdíói TV 2. „Mér varð ekki um sel í hvert sinn sem hann fékk orðið, ég vonaði að hann stæði sig og mér þótti hann gera það. [...] Þegar valið stendur um Toska eða eitthvert TikTok-frægðarmenni sem hefur aldrei séð skákborð er það val að minnsta kosti auðvelt fyrir mig. Þetta var hressandi val. Toska hefur athyglisverða sögu að segja og hefur vit á skák,“ skrifar leikarinn.

Hann segist ekki reikna með að fólk, gersneytt áhuga á skák, þyrpist að skjánum til að heyra hvort Toska telji affarasælla að leika peði á g4 en hróki á d1. Toska virðist hafa plummað sig vel að afplánun lokinni, hann sé vinnandi fjölskyldumaður sem sinni þeim hlutum sem hann telji hafa tilgang.

„Kannski verður það öðrum hvatning til dáða, sem rata á refilstigu svo sem hann gerði. Hann hefur afplánað sína refsingu og ætti að standa jafnfætis öðrum í samfélaginu. Það er það sem mér finnst um skák og David Toska á þessari stundu.“

NRK

Dagbladet

VG (grein Leif Welhaven)

VGII (grein Johannes Blåsternes)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert