Dró kafbát í var

Þrútið loft og þungur sjór á ljósmynd áhafnar björgunarskipsins Odin …
Þrútið loft og þungur sjór á ljósmynd áhafnar björgunarskipsins Odin RS 150 sem tók kafbát norska sjóhersins í tog í gær í kjölfar vélarbilunar. Ljósmynd/Áhöfn Odin RS 150

Áhöfn norska björgunarskipsins Odin RS 150 var kölluð út í óvenjulegt verkefni síðdegis í gær þegar kafbátur norska sjóhersins varð fyrir vélarbilun í Porsangerfjorden í Nordkapp norður í Finnmörk, nyrstu véum Noregs.

„Einn kafbáta okkar í ULA-flokki lenti í tæknilegum vandræðum klukkan rúmlega þrjú í dag. Þetta hafði í för með sér að hann var tekinn í tog,“ sagði Ivar Moen, vakthafandi upplýsingafulltrúi norska hersins, þegar ríkisútvarpið NRK náði tali af honum í gær, en það var vefmiðillinn Kyst og Fjord sem fyrst greindi frá björgunaraðgerðinni.

Odin RS 150 við bryggju heimahafnar sinnar í Havøysund.
Odin RS 150 við bryggju heimahafnar sinnar í Havøysund. Ljósmynd/Wikipedia.org/Tanja Krangnes

Vildi Moen sem minnst gera úr biluninni og kvað vandamálið smávægilegt. „Við erum að reyna að komast fyrir þetta núna, við erum í góðu sambandi við skipstjórann og eins og hann metur stöðuna núna er hún ekki alvarleg.“

„Nei,“ svaraði upplýsingafulltrúinn þegar viðmælandi hans hjá NRK spurði hvert til stæði að draga brynfleyið og sagðist enn fremur ekki vilja ræða málið frekar nema ef málið væri enn óleyst nú í morgun. Enn minna vildi hann opna sig um hvar kafbáturinn hefði verið og hvers konar verkefni áhöfn hans hefði verið að sinna.

Einn ULA-kafbáta norska sjóhersins sem eru sex talsins og leystu …
Einn ULA-kafbáta norska sjóhersins sem eru sex talsins og leystu báta af svokölluðum Kobben-flokki af hólmi, en þeir voru í notkun frá 1964 til 2001. Ljósmynd/Norski herinn/Jakob Østheim

„Það eru upplýsingar sem við gefum vanalega ekki. Það er pólitísk ákvörðun að við séum alltaf með kafbát tiltækan á norðursvæðunum og mikilvægt að hann sé til staðar. Umfram þetta veiti ég ekki frekari upplýsingar,“ lauk upplýsingafulltrúinn máli sínu um aðstoðina við kafbátinn í gær, en veður öll voru válynd á svæðinu svo sem sjá má af mynd áhafnar björgunarskipsins.

NRK

Kyst og Fjord (læst öðrum en áskrifendum)

mbl.is