Minnst 29 létust í troðningi

Monrovia, höfuðborg Líberíu.
Monrovia, höfuðborg Líberíu. AFP

Minnst 29 manns eru látnir eftir að troðningur myndaðist á kristilegri trúarhátíð í Monrovia, höfuðborg afríkuríkisins Líberíu í dag. Lögregla segir að líklega muni bætast í tölu látinna. 

Börn eru meðal hinna látnu og eru fjölmargir í lífshættu vegna áverka. 

Nákvæm örsök slyssins eru enn ókunn en ljóst er að troðningurinn myndaðist við kristilega bænastund, sem kallað er krossferð af Líberíumönnum, á knattspyrnuvelli í New Kru Town, verkamannahverfi í Monrovia. 

Slíkar samkomur laða gjarnan að sér þúsundir manna í Líberíu, þar sem meirihluti þeirra fimm milljóna sem þar búa eru heittrúaðir kristnir.

Fjölmiðlar í Líberíu greina frá að óprúttnir þjófar hafi ógnað mannfjöldanum með sveðjum og hnífum og því hafi troðningurinn myndast. Sjónarvottur sagði við AFP að hann hafi heyrt gríðarleg læti í lok athafnarinnar og síðan séð fjölmörg lík liggja um völlin allan. 

Í nóvember í fyrra varð álíka troðningur í Líberíu og létust þar tvö ungabörn ásamt því að fjölmargir slösuðust alvarlega. Ljóst er að atvikið, sem átti sér stað seint í gærkvöldi, sé talsvert alvarlegra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert