Sakaður um að hafa aðhafst ekkert

Josef Ratziniger, síðar Benedikt páfi XVI, árið 1979 er hann …
Josef Ratziniger, síðar Benedikt páfi XVI, árið 1979 er hann var erkibiskup í Munchen. AFP

Benedikt páfi XVI aðhafðist ekkert þegar hann var upplýstur um fjögur kynferðisbrot gegn börnum er hann var erkibiskup í Munchen í Þýskalandi. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar í Þýskalandi sem hefur rannsakað starfsemi kaþólsku kirkjunnar. 

Benedikt páfi, sem var þá þekktur sem Josef Ratziniger, var erkibiskup frá 1977 til 1982. Hann hefur neitað sök. 

Ulrich Wastl hjá Westpfahl Spilker Wastl fór yfir efni skýrslunnar …
Ulrich Wastl hjá Westpfahl Spilker Wastl fór yfir efni skýrslunnar á blaðamannafundi í dag. AFP

Þýska lögfræðistofan Westpfahl Spilker Wastl hefur aftur á móti kynnt niðurstöður rannsóknar, sem naut stuðnings kaþólsku kirkjunnar, á umræddum málum sem benda til brota fyrrverandi páfa. Því er haldið fram að ekkert hafi verið aðhafst í málunum, brot hafi viðgengist áfram og prestarnir sem eru sakaðir um kynferðisbrot hafi fengið að starfa áfram innan kirkjunnar. 

Benedikt páfi er nú 94 ára gamall. Hann sagði af sér embætti árið 2013 og varð þar með fyrsti leiðtogi kaþólsku kirkjunnar í rúmlega 600 ár sem segir af sér. 

Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar í dag.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar í dag. AFP

Fram kemur í umfjöllun breska útvarpsins að Benedikt páfi hafi svarað spurningum lögfræðistofunnar skriflega og telji svörin tugi blaðsíðna þar sem hann lýsti yfir stuðningi við rannsóknina, en aftur á móti lýsti hann yfir því að hann annað hvort byggi ekki yfir vitneskju um tiltekin mál eða neitaði því að ekki hefði verið brugðist við. 

Í skýrslunni er vísað til fundargerðar sem bendi sterklega til þess að hann hafi verið viðstaddur fund þar sem málin voru til umræðu á sínum tíma. 

Talsmaður Páfagarðs segir að farið verði gaumgæfilega yfir rannsóknina. 

mbl.is