Suðurskautsflugið er flókið verkefni

Katla, flugvél Loftleiða Icelandic, tekur á loft frá ísflugbrautinni á …
Katla, flugvél Loftleiða Icelandic, tekur á loft frá ísflugbrautinni á Union-jökli fyrir flugið þaðan til Punta Arenas í Síle.

Loftleiðir Icelandic, dótturfélag Icelandair Group, flaug tólf ferðir til Suðurskautslandsins í fyrra. Áætlaðar eru sex ferðir nú í janúar.

Fimmtán þessara ferða hafa verið fyrir ferðaskrifstofuna Antarctic Logistics and Expeditions (ALE). Flogið er á milli Punta Arenas í Síle og flugbrautar á Union-jökli með Boeing 757-þotu. Farþegarnir eru vísindamenn, leiðangursmenn og ferðamenn. Flugtími er um fjórar klukkustundir hvora leið.

Katla, þota Loftleiða Icelandic, og bíll frá Arctic Trucks Polar …
Katla, þota Loftleiða Icelandic, og bíll frá Arctic Trucks Polar við ísflugbrautina á Union jökli.

Þrjár ferðir voru farnar fyrir norsku pólstofnunina með vísindamenn milli Óslóar og rannsóknarstöðvarinnar Troll vegna starfsmannaskipta. Farið var í febrúar 2021 og svo aftur í nóvember. Þriðja ferðin var svo farin 9. janúar sl. Millilent var í Cape Town í Suður-Afríku þar sem voru áhafnaskipti. Flogið var með Boeing 767 og flugtíminn milli Cape Town og Troll er um fimm og hálf klukkustund.

„Þetta er sennilega eitt flóknasta verkefni sem við höfum ráðist í á síðustu árum,“ segir Linda Gunnarsdóttir, yfirflugstjóri hjá Icelandair. „Þetta er allt öðruvísi en flugið sem við sinnum venjulega. Báðar flugbrautirnar eru ruddar á ís (Blue Ice Runway).“

Gerðar voru ákveðnar breytingar á flugvélunum til að laga þær að kuldanum og aðstæðum á Suðurskautslandinu. Flugvirki var í áhöfn og teknir með ýmsir varahlutir ef á þyrfti að halda. Stuðst er við aðflugsbúnað sem byggir á gervihnattaleiðsögn. Flugvélarnar bera eldsneyti fyrir flug fram og til baka. Hægt er að bæta við það á Troll ef þörf krefur.

Linda segir mjög strangar sóttvarnareglur hafa gilt til að forðast að koma með Covid-smit.

„Farþegarnir sem við fluttum frá Ósló í byrjun janúar voru búnir að vera í einangrun á hóteli í 40 daga, áður en þeir fóru niður eftir. Við Covid-prófuðum alla áhafnarmeðlimi í nokkra daga fyrir flugið og samskipti við farþega voru í lágmarki,“ segir Linda.

Hún segir veður oft hamla flugi til Suðurskautslandsins. Þar er staðviðrasamt líkt á Grænlandi. „Annaðhvort er gott veður í langan tíma eða það koma tímabil þegar veður er slæmt. Við þurfum að miða við veðurglugga, þegar fært er að fljúga,“ segir hún.

Tugir starfsmanna hafa komið að verkefninu Icelandair á Suðurskautslandinu. Að jafnaði eru um níu starfsmenn félagsins í senn í Punta Arenas meðan á verkefninu stendur. Hverri ferð milli Ósló og Troll sinnir 20 manna áhöfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert