Fannst látinn umkringdur snákum

Kyrkislanga frá Búrma.
Kyrkislanga frá Búrma. AFP

Bandarískur karlmaður fannst látinn á heimili sínu umkringdur yfir hundrað snákum sem margir voru eitraðir. 

Nágrannar mannsins gerðu lögreglu viðvart eftir að hafa farið inn á heimili mannsins í Maryland-ríki og fundið hann liggjandi á gólfinu, að því er virtist meðvitundarlaus.

Ólöglegt að eiga eitraða snáka

Þegar lögregla kom á vettvang fundust 124 snákar, á meðal þeirra gleraugnaslöngur, kyrkislöngur og skröltormar. Stærsti snákurinn var yfir fjögurra metra löng kyrkislanga frá Búrma að því er BBC greinir frá. 

Snákarnir voru í búrum og var dýraeftirlit kallað til. Dánarorsök mannsins liggur ekki fyrir, en ekkert bendir til þess að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað. 

Unnið er að því að flytja snákana í athvörf og til nýrra eiganda, en ólöglegt er að eiga eitraða snáka í Maryland-ríki. 

mbl.is