Á áttunda tug handteknir í mótmælum

Á áttunda tug mótmælenda voru handteknir í Brussel í Belgíu …
Á áttunda tug mótmælenda voru handteknir í Brussel í Belgíu í dag. AFP

Lögregla í Brussel, höfuðborg Belgíu, beitti táragasi og skaut vatni á mótmælendur sem komu saman á götum borgarinnar í dag til þess að mótmæla sóttvarnaaðgerðum. Á áttunda tug mótmælenda var handtekinn fyrir að kasta steinum og hlutum í átt að lögreglumönnum og fyrir skemmdir á eignum. 

Lögreglan telur að um 50 þúsund manns hafi komið saman í Brussel í dag en mótmælin eru þau fjölmennustu í mótmælaröð sem staðið hefur yfir undanfarna mánuði. 

Átök brutust út í grennd við höfuðstöðvar Evrópusambandsins og neyddist lögregla til að beita táragasi á mótmælendurna sem köstuðu steinum og kveiktu á púðurkerlingum. Lögregla þurfti seinna að fara í skjól fyrir mótmælendum á lestarstöð. 

Þrír lögregluþjónar og tólf mótmælendur voru lagðir inn á sjúkrahús en enginn þeirra var í lífshættu. 

Þrír lögreglumenn og tólf mótmælendur voru fluttir á slysadeild í …
Þrír lögreglumenn og tólf mótmælendur voru fluttir á slysadeild í dag. AFP

„Tjáningarfrelsið er ein grunnstoða samfélagsins. Allir mega tjá skoðun sína. En samfélag okkar mun aldrei samþykkja ofbeldi, og þá sérstaklega ekki þegar það beinist að lögreglumönnum. Þau sem tóku þátt í aðgerðunum í dag verða sóttir til sakar,“ sagði Alexander De Croo forsætisráðherra Belgíu í tilkynningu í dag. 

Borgarstjóri Brussel Philippe Close sagði á Twitter að dagurinn í dag hafi verið erfiður. „Ekkert réttlætir líkamsárásir sem beinast gegn lögreglumönnum okkar,“ sagði hann. 

Í Belgíu hefur sóttvarnaraðgerðum verið mótmælt harðlega en metfjöldi smita hefur greinst í landinu undanfarnar vikur. Þar er Ómíkron afbrigðið ríkjandi. 

Mótmælendur um alla Evrópu hafa verið hvattir til þess að koma til Belgíu til þess að mótmæla sóttvarnaaðgerðum í Evrópu og sjá mátti fána Póllands, Hollands, Frakklands og Rúmeníu í hópi mótmælenda í dag. 

„Það sem hefur gerst frá árinu 2020 hefur opnað augu fólks fyrir spillingu,“ sagði Francesca Fanara, sem ferðaðist frá Lille í norður Frakklandi til þess að taka þátt í mótmælunum. „Ég er hingað komin til að mótmæla með öðrum,“ sagði hún. 

Belgar hafa búið við strangar reglur undanfarnar vikur en þeim var aflétt fyrir skömmu. Á föstudag greindi De Croo frá því að veitingastaðir og barir mættu opna dyr sínar á ný, en næturklúbbar eru enn lokaðir.

Mótmælendur úr öðrum Evrópulöndum hafa verið hvattir til að mæta …
Mótmælendur úr öðrum Evrópulöndum hafa verið hvattir til að mæta á mótmælin í Brussel. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert