Vísað frá Auschwitz eftir nasistakveðju

Konan heilsaði að sið nasista við Arbeit macht frei hliðið …
Konan heilsaði að sið nasista við Arbeit macht frei hliðið í Auschwitz. AFP

Lögregla í Póllandi vísaði í dag þrítugri hollenskri konu frá útrýmingarbúðum nasista, Auschwitz-Birkenau. Hafði konan verið með nasistaáróður í búðunum sem eru vinsæll áfangastaður ferðamanna. 

„Ferðamaðurinn heilsaði með nasistakveðju fyrir utan Arbeit Mach Frei (Vinnan gerir mann frjálsan) hliðið. Konan var ákærð fyrir nasistaáróður. Hún játaði sekt sína,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni í Oswiecim. Ákæruvaldið gerði henni að greiða sekt, sem hún gerði samkvæmt pólskum fjölmiðlum. 

Lélegur brandari

Í pólskum fjölmiðlum segir einnig að konan hafi verið gripin af vörðum í útrýmingarbúðunum þegar hún stillti sér upp á mynd fyrir eiginmann sinn. „Hún sagði að þetta væri lélegur brandari,“ sagði Bartosz Izdebiski, fjölmiðlafulltrúi pólsku lögreglunnar. 

Nasistar byggðu útrýmingarbúðirnar í Oswiecim í Póllandi á meðan seinni heimstyrjöldinni geisaði. Búðirnar eru í dag minnisvarði um þá gyðinga sem drepnir voru í búðunum en talið er að um ein milljón gyðinga hafi verið myrt þar á árunum 1940 til 1945. Auk voru yfir 100.000 manns sem ekki voru af gyðingaættum teknir af lífi í búðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert