8.500 bandarískir hermenn í viðbragðsstöðu

8.500 bandarískir hermenn eru í viðbragðsstöðu.
8.500 bandarískir hermenn eru í viðbragðsstöðu. AFP

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, Pentagon, segir um 8.500 bandaríska hermenn vera í viðbragðsstöðu og tilbúna að vígbúast með stuttum fyrirvara. BBC greinir frá.

Varnarmálaráðuneytið sagði að engin ákvörðun hefði enn verið tekin um hvort senda ætti herliðið til aðstoðar Úkraínumönnum. Það myndi einungis gerast ef hernaðarbandalagið NATO myndi ákveða að virkja herlið, „eða ef aðrar aðstæður myndast“ varðandi söfnun rússneska herliðsins í Úkraínu, sagði John Kirby, fjölmiðlafulltrúi ráðuneytisins.

Aðild­ar­ríki NATO og vin­veitt­ar þjóðir eru með orr­ustuþotur og her­skip reiðubú­in til þess að liðsinna úkraínsk­um her­mönn­um komi til þess að Rúss­ar ráðist inn í landið.

„Þetta sannar hversu alvarlega Bandaríkin taka skuldbindingu sína við NATO,“ sagði Kirby en um helgina bárust um 90 tonn af bandarískri „banvænni aðstoð,“ til Úkraínu, þar á meðal voru skotfæri fyrir „framlínuvarnarmenn.“

Sum NATO-ríki, þar á meðal Danmörk, Spánn, Búlgaría og Holland hafa nú þegar sent herflugvélar og freigátur til Austur-Evrópu til að styrkja varnir á svæðinu.

Biden mun eiga myndsímtal við bandamenn

Rússar hafa neitað því að þeir hyggi á hernaðaraðgerðir gegn Úkraínu, þrátt fyrir að hafa sent yfir 100.000 hermenn á svæðið.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, mun síðar í kvöld eiga myndsímtal við evrópska bandamenn. Þar munu þeir ákvarða sameiginlega stefnu.

Áætlað er að Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands, Emmanuel Macron forseti Frakklands, Olaf Scholz kanslari Þýskalands, Mario Draghi forsætisráðherra Ítalíu, Andrzej Duda forseti Póllands, Jens Stoltenberg yfirmaður Nato og leiðtogar ESB, Ursula Von der Leyen og Charles Michel muni mæta á fjarfundinn. 

Joe Biden.
Joe Biden. AFP
mbl.is