Bandaríkjamenn kalla sitt fólk heim frá Úkraínu

Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa skipað ættingjum erindreka landsins í Úkraínu að koma aftur heim vestur um haf vegna ótta við yfirvofandi innrás Rússlands inn í Úkraínu.

Starfsmenn sendiráðs Bandaríkjanna í Úkraínu, sem ekki sinna ófrávíkjanlegum störfum, hafa einnig verið kallaðir heim, að því er fram kemur í frétt BBC.

Utanríkisráðuneytið segir að sendiráðið sé enn opið en að innrás Rússa geti raungerst á augabragði.

Ráðuneytið varaði einnig við ferðalögum bandarískra ríkisborgara til Úkraínu og Rússlands vegna spennunnar sem ríkir milli landanna og vegna „mögulegs aðkasts sem bandarískir ríkisborgarar gætu mætt“.

Fulltrúi utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna segir að komi til innrásar Rússa muni Bandaríkin ekki geta flutt bandaríska ríkisborgara úr landinu með hraði.

Pútín þvertekur fyrir innrásaráform

Sérfræðingar og fréttaskýrendur í Bandaríkjunum segja að líklega hafi ekki einhver einn atburður liðinna daga orðið til þess að Bandaríkin kalli fjölskyldur erindreka sinna heim.

Talið er að um 100 þúsund rússneskir hermenn séu nú staðsettir á landamærum Rússlands og Úkraínu. Bandaríkin hafa sent tugi tonna af hergögnum til Úkraínu og alþjóðasamfélagið hvetur til stillingar.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur harðneitað því að innrás vofi yfir en segist þó gera skýra kröfu um það að Úkraína gangi ekki í NATO þar sem það hefði í för með sér að landamæri bandalagsins næðu þannig alla leið upp að landamærum Rússlands.

Rússar hafa áður ráðist inn í Úkraínu, síðast árið 2014 þegar Krímskagi var hertekinn. Það gerðist í kjölfar þess að foringja landsins, sem var hliðhollur Rússum, var steypt af stóli.

mbl.is

Bloggað um fréttina