Neyðarástandi vegna Covid gæti lokið á árinu

„Við getum bundið enda á Covid-19 sem neyðarástand á alþjóðlega vísu og við getum gert það á þessu ári,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO.

Þetta sagði hann þrátt fyrir að í síðustu viku hafi einhver í heiminum látist af völdum sjúkdómsins á tólftu hverju sekúndu.

Hann bætti þó við að „alþjóðlegar aðstæður eru kjörnar fyrir ný afbrigði [veirunnar] til að brjótast fram.“

Til að neyðarástandinu geti lokið þurfa þjóðir heims að leggja enn harðar að sér til að tryggja nægan aðgang að bóluefnum og meðferðarúrræðum, sinna smitrakningu veirunnar og afbrigða hennar, og halda takmörkunum áfram.

Helmingi allra ríkja innan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar tókst ekki að ná því markmiði að bólusetja 40 prósent almennings fyrir lok síðasta árs og 85 prósent fólks í Afríku eiga enn eftir að fara í fyrstu bólusetninguna, að sögn Tedros.

„Við einfaldlega getum ekki lokið neyðarástandinu vegna faraldursins fyrr en við brúum þetta bil,“ sagði hann.

mbl.is