Djammið í Downingstræti verði til lykta leitt

Grímuklæddur Boris Johnson sést hér yfirgefa Downingstræti í dag.
Grímuklæddur Boris Johnson sést hér yfirgefa Downingstræti í dag. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, heitir því að hann muni veita lögreglunni fullt liðsinni varðandi rannsókn lögreglu á gleðskap sem fór fram í Downingstræti þegar harðar samkomutakmarkanir voru í gildi í landinu. 

„Ég fagna ákvörðun Lundúnalögreglunnar sem ætlar að hefja sjálfstæða rannsókn, því ég tel að þetta muni veita almenningi þá innsýn sem þörf er á til að ljúka málinu endanlega,“ sagði Johnson á breska þinginu í dag. 

Því hefur verið haldið fram að talsvert hafi verið um samkomur og gleðskap í húsakynningum forsætisráðherrans við Downingstræti í London á meðan aðrir landsmenn bjuggu við mjög harðar aðgerðir og samkomutakmarkanir. Hart er að sótt að Johnson og ríkisstjórn hans og hafa margir kallað eftir því að ráðherrann segi af sér tafarlaust. 

Lögreglan í London hefur einnig verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa neitað að rannsaka slíkar ásakanir undanfarin tvö ár.

Lögreglustjórinn, Cressida Dick, hefur nú greint frá því að formleg rannsókn muni fara fram. Verði Johnson boðaður í skýrslutöku, þá verður hann aðeins annar sitjandi forsætisráðherra í sögu Bretlands sem þarf að svara spurningum lögreglum í tengslum við formlega lögreglurannsókn sem er í gangi. 

Cressida Dick, lögreglustjórinn í London, hefur greint frá því að …
Cressida Dick, lögreglustjórinn í London, hefur greint frá því að formleg lögreglurannsókn muni fara fram. AFP

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, var í þrígang boðaður í skýrslutöku sem vitni árið 2006 í tengslum við rannsókn lögreglu á því að menn gætu keypt sér aðalstign. Árið 2007 greindi lögreglan frá því að ekkert yrði aðhafst frekar í málinu. 

Hátt settur opinber starfsmaður, Sue Gray, hefur þegar hafið sjálfstæða rannsókn á meintum sóttvarnarbrotum í Downingstræti, sem Bretarnir kalla "partygate". Búist er við að hún muni skila sínum niðurstöðum innan fárra daga. 

Talsmaður forsætisráðherrans segir að rannsókn Gray tengist ekki fyrirhugaðri rannsókn lögreglu.  

Gray er meðal annars sögð vera að skoða fullyrðingar, sem var fyrst greint frá í gærkvöldi, að Johnson hafi brotið gegn lögum um sóttvarnir með því að halda afmæli í Downingstræti 19. júní 2020. Breska fréttastöðin ITV News heldur því fram að um 30 manns hafa þá verið samankomin í húsinu, en á þeim tíma máttu mest sex koma saman í einu. 

Mikil reiði er meðal almennings vegna þessara frétta og Johnson legið undir ámæli vegna málsins. Hann er meðal annars sakaður um hræsni í ljósi þess að milljónir landsmanna hafi verið gert að hlíta hertum reglum á meðan hann hafi verið að gera sér glaðan dag þvert á eigin tilmæli. 

mbl.is