Minnst 36 létust í veðurofsa

Fjöldi fólks neyddist til þess að yfirgefa heimili sín vegna …
Fjöldi fólks neyddist til þess að yfirgefa heimili sín vegna flóða í kjölfar hitabeltisstormsins. AFP

Minnst 34 létust þegar hitabeltisstormurinn Ana fór yfir Madagaskar í byrjun vikunnar og tveir í Mósambík. Þá varð óveðrið einnig til þess að allt rafmagn sló út í Malaví, að því er þarlend stjórnvöld greindu frá í gær.

Nærri 65 þúsund manns misstu heimili sín

Stormurinn myndaðist yfir austurströnd Madagaskar, einni stærstu eyju Afríku en honum fylgdi mikið úrhelli, flóð og aurskriður, sem sópaði burt heilu húsunum í höfuðborginni Antananarivo, að því er fréttastofa AFP greinir frá.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá almannavörnum Madagaskar hafa minnst 34 látið lífið og nærri 65 þúsund manns misst heimili sín vegna óveðursins þar í landi síðan í síðustu viku.

Storminum fylgdi mikið úrhelli sem olli flóðum og aurskriðum.
Storminum fylgdi mikið úrhelli sem olli flóðum og aurskriðum. AFP

Stormurinn þveraði Indlandshaf og náði svo að meginlandi Afríku á mánudaginn síðastliðinn, sem leiddi einnig til mikilla rigninga í mið- og norðurhéruðum Mósambík.

Tveir létu lífið og minnst 49 særðust í óveðrinu í Zambezia-héraði Mósambík, að því er talsmenn neyðarstjórnarinnar í landinu greindu frá í dag.

Sameinuðu þjóðirnar spá því að stormurinn muni valda víðtækum flóðum, miklum skemmdum á innviðum og fólksflótta.

Íbúar Malaví í myrkri vegna rafmagnsleysis

Hugsanlega muni stormurinn hafa áhrif á íbúa í norðurhluta Mósambík, sem eru í viðkvæmri stöðu fyrir vegna fyrrum náttúruhamfara og átaka á svæðinu.

Ríkisstjórnir og stofnanir Sameinuðu þjóðanna áætla að stormurinn geti haft áhrif á líf um 500.000 manns í Nampuela-, Zambezia- og Sofala-héruðunum í Mósambík.

Vegna mikilla flóða sem fylgdu storminum neyddust raforkuframleiðslufyrirtæki í Malaví til þess að slökkva á orkuframleiðsluvélum sínum aðfararnótt mánudags og skildu þannig íbúa á meginlandinu eftir í myrkri.

Flóttafólk frá Ankorondrano og Tsaramasay hverfunum í Antananarivo fékk hæli …
Flóttafólk frá Ankorondrano og Tsaramasay hverfunum í Antananarivo fékk hæli í íþróttamiðstöð í borginni. AFP

„Okkar kynslóð er háð yfirborðsstöðu vatnsins í landinu og sem stendur er yfirborðsstaða vatnsins of há til að við getum keyrt vélarnar. Það er of áhættusamt,“ sagði Moses Gwaza, talsmaður rafveitunnar Electricity Generation Company, í samtali við blaðamann fréttastofu AFP.

Í morgun greindu talsmenn fyrirtækisins svo frá því að þeir væru byrjaðir að endurheimta rafmagn eftir rafmagnsleysið.

mbl.is