Búast við innrás Rússa fyrir miðjan febrúar

Rússneskir hermenn á göngu við Kronshtadt-sjóherstöina fyrir utan St. Pétursborg.
Rússneskir hermenn á göngu við Kronshtadt-sjóherstöina fyrir utan St. Pétursborg. AFP

Bandarísk stjórnvöld telja að Vladimír Pútín Rússlandsforseti sé enn reiðubúinn að ráðast inn í Úkraínu með valdi fyrir miðjan febrúar, þrátt fyrir þrýsting Vesturlanda í því skyni að koma í veg fyrir þau áform.

„Ég hef ekki hugmynd um hvort hann sé búinn að taka endanlega ákvörðun, en við sjáum vissulega öll merki þess að hann muni beita hernaðarvaldi einhvern tíma kannski frá líðandi stundu og fram í miðjan febrúar,“ sagði aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, Wendy Sherman, í erindi sínu á ráðstefnu í dag.

Vetrarólympíuleikar gætu haft áhrif

Sherman, sem kom til fundar við rússneska kollega sína í Vínarborg fyrr í mánuðinum, sagði að áform Pútíns kynnu að markast af Vetrarólympíuleikunum sem hefjast í Peking 4. febrúar.

„Ég held að Xi Jinping forseti yrði ekki yfir sig hrifinn ef Pútín veldi þá stund til að ráðast inn í Úkraínu, svo ég held að það geti haft áhrif á tímasetninguna og þankagang Pútíns.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert