Myndskeið endurvekur umræður um heimilisofbeldi

Útgöngubann er í gildi í Xi'an líkt og víða annars …
Útgöngubann er í gildi í Xi'an líkt og víða annars staðar í Kína. AFP

Myndbandsupptaka af manni að beita maka sinn ofbeldi, sem fer nú eins og eldur í sinu um kínverska samfélagsmiðla, hefur endurvakið umræður þar í landi um hvernig refsa eigi heimilisofbeldismönnum. Þykja viðbrögð lögreglunnar við málinu einnig skammarverð og vöktu þau upp mikla reiði.

Í síðustu viku fór myndbandsupptaka úr heimaeftirlitsmyndavél í dreifingu á kínverskum samfélagsmiðlum þar sem maður sést ganga í skrokk á eiginkonu sinni á heimili þeirra í boginni Xi'an í Kína þar sem útgöngubann hefur verið í gildi vegna Covid-19. Á myndskeiðinu sést maðurinn ítrekað lemja konuna á meðan að barn fylgist með einungis nokkrum metrum frá.

Ættingjar og samstarfsfélagar konunnar birtu upptökuna á samfélagsmiðlum og var myndefnið orðið umfjöllunarefni kínverskra fjölmiðla skömmu síðar.

Haldið í fimm daga

Það voru þó ekki síður viðbrögð lögreglunnar sem vöktu upp sterk viðbrögð meðal netverja en í yfirlýsingu hennar sagði að átök höfðu brotist út meðal hjónanna eftir „öfgafulla orðanotkun og gjörðir“ konunnar. Kom þar einnig fram að lögregluþjónarnir hefðu „gagnrýnt og upplýst“ konuna. 

Manninum var í kjölfarið haldið af lögreglu í fimm daga en var síðan sleppt án ákæru.

„Það er engin leið að reiða sig á lögin til að vernda mann þegar eina sem þeir gera er að gagnrýna fórnarlömbin,“ sagði í einum ummælunum á samfélagsmiðlum.

Fjórðungur upplifað heimilisofbeldi

Samkvæmt kínverskum lögum um heimilisofbeldi, sem samþykkt voru árið 2016, er einungis hægt að halda ofbeldismönnunum í gæsluvarðhaldi í 20 daga. Ekki er hægt að fara fram á harðari refsingu nema hægt sé að sýna fram á alvarlega áverka eða glæpsamlegan ásetning.

Miklar áhyggjur hafa einnig verið uppi varðandi ný skilnaðarlög í Kína sem kveða á um að hjón sem óska eftir skilnaði verði að verja 30 dögum í að íhuga þá skoðun saman. Eru lögin talin gera þeim erfiðara fyrir sem vilja yfirgefa ofbeldisfullt hjónaband.

Samkvæmt könnun sem framkvæmd var árið 2013 hefur fjórðungur giftra kvenna í Kína upplifað heimilisofbeldi. 

mbl.is