Óbólusettur fær ekki hjartaígræðslu

Skammtur af bóluefni gegn Covid-19.
Skammtur af bóluefni gegn Covid-19. AFP

Bandarískt sjúkrahús hefur tekið karlmann af lista yfir þá sem geta fengið hjartaígræðslu, að minnsta kosti að hluta til vegna þess að hann er ekki bólusettur gegn Covid-19.

Brýn þörf er á því að DJ Ferguson, sem er 31 árs, fái nýtt hjarta en sjúkrahúsið í Boston tók hann af listanum sínum, að sögn föður hans, David.

David sagði að bólusetning gegn Covid gangi gegn grundvallargildum sonar síns og að „hann trúir ekki á hana", að því er BBC greindi frá. 

Sjúkrahúsið sagðist fylgja sínum reglum og í yfirlýsingu til BBC sagði: „Miðað við skortinn á líffærum sem eru í boði gerum við allt sem við getum til að að tryggja að lífslíkur sjúklings sem fær líffæri séu sem mestar.“

Að sögn talsmanns sjúkrahússins er þörf á „bóluefni gegn Covid-19 og breytingu á lífstíl til að líffæraþegarnir sem koma til greina eigi sem mesta möguleika á vel heppnaðri aðgerð og að sem mestar líkur séu á að sjúklingurinn lifi af að lokinni ígræðslunni, miðað við hversu mikið ónæmiskerfið er bælt niður“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert