Bandarískur kennari handtekinn í Moskvu sakaður um fíkniefnainnflutning

Maðurinn var handtekinn á flugvelli í Moskvu og hefur nú …
Maðurinn var handtekinn á flugvelli í Moskvu og hefur nú verið ákærður fyrir stórfelldan innflutning á fíkniefnum. Myndin er úr safni. AFP

Bandarískur kennari var handtekinn í Moskvu, höfuðborg Rússlands, með maríjúana á sér. Hann er nú í haldi grunaður um stórfellt fíkniefnasmygl. Rússnesk stjórnvöld greindu frá þessu í dag, en mikil spenna er í samskiptum ríkjanna um þessar mundir. 

Marc Fogel var handtekinn þegar hann var að fara í gegnum tollskoðun eftir að fíkniefnaleitarhundar gerðu tollvörðum viðvart. 

Að sögn rússneska innanríkisráðuneytisins, fannst maríjúana og hassolía vandlega falin í töskunni. Ráðuneytið segir að maríjúanað hafi verið falið í íláti fyrir augnlinsur en olían fannst í hylkjum fyrir rafrettur.

Í umfjöllun AFP segir að Fogel hafi verið handtekinn í ágúst. Hann hafi síðan notið diplómatískrar friðhelgi þar til í maí í fyrra að sögn ráðuneytisins. Hann starfaði við Angló-Ameríska skólann í Moskvu þegar hann var handsamaður. 

Ráðuneytið telur að Fogel hafi mögulega nýtt sér friðhelgina til að smygla fíkniefnum inn í landið og til að dreifa þeim meðal nemenda í skólanum þar sem hann kenndi. 

Fogel hefur verið ákærður fyrir stórfelldan fíkniefnainnflutning og fyrir að hafa fíkniefni í fórum sínum. Rússneskur dómstóll gaf út handtökuskipun á hendur honum til að koma í veg fyrir að hann næði að flýja land. 

Talsmaður bandaríska sendiráðsins í Moskvu segir að málið sé litið alvarlegum augum. „Við tökum þá ábyrgð alvarlega að aðstoða bandaríska ríkisborgara erlendis og við fylgjumst grannt með framvindu málsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert